Innlent

Leggja af skallaæfingar fyrir börn yngri en 12 ára

Erla Björg Gunnarsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Hákon Sverrisson yfirþjálfari knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Hákon Sverrisson yfirþjálfari knattspyrnudeildar Breiðabliks. Stöð 2
Skipulagðar skallaæfingar fyrir börn yngri en tólf ára hafa verið lagðar af hjá fjölmennasta íþróttafélagi landsins, Breiðablik. Félagið vill setja gott fordæmi og ekki tefla í tvísýnu enda til rannsóknir sem sýna fram á skaðsemi þess að skalla.

Mikil umræða hefur verið um skallabolta og mögulegar afleiðingar á börn. Í Bandaríkjunum er skallaboltaæfingar ekki fyrir tólf ára og yngri og nú hefur Breiðablik fetað í þau fótspor.

„Við vorum að kynna það að við ætlum ekki að vera með skipulagðar skallaæfingar fyrir krakka yngri en tólf ára hjá okkur og ætlum aðeins svona að svara þeim vangaveltum sem hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu og þeim rannsóknum sem hafa komið fram um mögulega skaðsemi sköllunar,“ segir Hákon Sverrisson yfirþjálfari knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Sköllun áhættuþáttur áfram

Breiðablik er fjölmennasta félagið á landinu og vilja gefa gott fordæmi. Sýnt hefur verið fram á að höfuðáverkar í íþróttum séu vanmetnir, heilaskaði geti orðið þegar mikið eða snöggt högg kemur á höfuð. Sköllun er því áhættuþáttur en er þó ekki endilega alveg úr sögunni.

„Við ætlum ekki að banna skalla ef þannig atvik koma upp á vellinum en við ætlum ekki að vera með æfingar þar sem við endurtökum sköllun sífellt.“

Eftir tólf ára aldurinn verður svo leyfilegt að æfa markvisst sköllun.

„Við þurfum að kenna krökkum á vissum tímapunkti hvernig á að beita sér og skalla rétt svo þú meiðir þig ekki og þú setjir þig ekki í mögulega hættu.“


Tengdar fréttir

Vill banna börnum að skalla fótbolta

Ryan Mason þurfti að leggja fótboltaskóna á hilluna eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg í leik á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Nú ætlar hann að berjast fyrir reglubreytingu í barnafótboltanum í Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×