Erlent

Skordýr mögulega sökudólgarnir í „hljóðárásunum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu.
Sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu. Vísir/Getty
Vísindamenn sem rannsakað hafa uppruna hljóðs sem talið er hafa orsakað heilsuvandræði starfsmanna bandaríska sendiráðsins í Havana á Kúbu telja að rekja megi hljóðið til skordýra af krybbutegund.

Rúmlega tuttugu starfsmenn sendiráðsins hafa þjáðst af einkennum eins og vægs heilaskaða, heyrnartaps, svima og ógleði og var talið líklegt að einhvers konar hljóðvopni hafi verið beint að sendiráðinu í „hljóðárás“.

Sú skýring fékk byr undir báða vængi eftir að fréttaveita AP birti upptöku af hljóðinu sem heyrðist en þar má heyra að um er að ræða skerandi síbylju. Sérfræðingur stóðu lengi vel á gati um hver uppruni hljóðsins væri, þangað til nú.

Vísindamenn í Bandaríkjunum og Bretlandi rannsöku hljóðupptökuna og telja þeir víst að hljóðið sem þar má heyra komi frá skordýri af krybbutegund en krybbur eru skyldar engisprettum.

Nánar tiltekið er um að ræða tegund sem finnst einkum á eyjunum í Karíbahafi, þar með talið á Kúbu.

Í frétt Guardian eru þó slegnir þeir varnaglar að ekki hafi allir þeir sendiráðsstarfsmenn sem veiktust tengt hljóð við veikindin auk þess sem að þeir sem það gerðu lýstu hljóðinu á mismunandi hátt. Því sé ekki hægt að slá því föstu að krybbuhljóðið hafi orsakað veikindin, né sé hægt að útiloka að einhvers konar hljóðvopni hafi verið beitt.

Þá er einnig haft eftir skorýrasérfræðingi sem fór yfir niðurstöðurnar að hann viti ekki um tilfelli þar sem krybbuhljóðið hafi orsakað heilsuvandræði. Hann segist þó ekki efast um það að hljóðið á upptökunni sem AP birti hafi komið frá krybbum.


Tengdar fréttir

Dularfullu hljóðvopni mögulega beitt gegn sendiráðsmönnum á Kúbu

Fimm starfsmenn og makar starfsmanna bandaríska sendiráðsins í Havana á Kúbu hafa orðið fyrir heyrnartapi frá því seint á síðasta ári. Grunur leikur á að einhvers konar tæki með hættulegum hljóðbylgjum hafi verið beitt gegn þeim. Tveir kúbanskir erindrekar hafa verið reknir frá Bandaríkjunum vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×