Viðskipti innlent

Smáratívolí heyrir brátt sögunni til

Atli Ísleifsson skrifar
Frétablaðið/ernir
Smáratívolí í Smáralind mun hætta starfsemi í lok febrúar næstkomandi. Þetta gerist samfara breytingum á neðri hæð austurhluta Smáralindar að því er fram kemur í tilkynningu frá rekstraraðilum.

Smárabíó mun taka yfir hluta húsnæðisins þar sem Smáratívólí var áður og bjóða upp á þjónustu fyrir hópa og afmæli sem og fjölbreytta afþreyingu á efri hæð hússins. Þá verður rekstur barnagæslu á vegum bíósins.

„Sleggjan og klessubílarnir fara á næstu vikum. Nýjar myndir eru komnar í 7D bíóið og börnum hærri en 110 cm gefst kostur á að róla í sleggjunni þar til hún fer.“

Í tilkynningunni eru viðskiptavinir sem eiga inneignarkort í Smáratívolí hvattir til að nýta þau fyrir lokun. „Eigendur inneignarkorta geta einnig notað kortin frá 1. mars í þeim leiktækjum sem Smárabíó mun reka á efri hæð,“ segir í tilkynningunni.

Smáratívolí opnaði í nóvember 2011.


Tengdar fréttir

Landsbankinn fjármagnar skemmtigarð í Smáralind

Landsbankinn tekur þátt í að fjármagna nýjan skemmtigarð sem verður opnaður í verslunarmiðstöðinni Smáralind í næsta mánuði. Skemmtigarðurinn verður þar sem Vetrargarðurinn var áður, í austurenda Smáralindar. Skrifað var undir fjármögnunarsamning milli Landsbankans og rekstrarfélags skemmtigarðsins þann 14. október síðastliðinn.

Skemmtigarðurinn þykir bestur

Skemmtigarðurinn í Smáralind hlaut í gær verðlaun sem Besti innanhúss skemmtigarður heims árið 2012. Verðlaunin eru veitt árlega af IAAPA, alþjóðlegum samtökum skemmtigarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×