Handbolti

Magakveisa ástæðan fyrir slæmri byrjun Noregs á EM?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórir lenti í vandræðum fyrir EM.
Þórir lenti í vandræðum fyrir EM. vísir/afp
Norska kvennalandsliðið í handknattleik tryggði sér í dag 5.sætið á Evrópmótinu í eftir stórsigur á Svíþjóð. Árangurinn er töluvert undir væntingum en slæm byrjun á mótinu gerði það að verkum að ekki gekk betur. Nú gæti verið komin ástæða fyrir slæmri byrjun á mótinu.

Noregur hefur verið eitt af bestu liðunum í kvennahandboltanum í áraraðir og meðal annars unnið sex Evróputitla frá árinu 2004. Það eru því vonbrigði að liðið hafi aðeins náð 5.sæti á mótinu í Frakklandi þrátt fyrir að lykilmenn hafi verið frá vegna meiðsla.

Í samtali við TV2 í Noregi greinir læknir norska liðsins, Nils Ivar Leraand, frá því að veikindi hafi sett strik í reikninginn hjá liðinu fyrir mótið.

„Það voru sjö leikmenn sem fengu niðurgang og uppköst, sem betur fer ekki fleiri. Líklega veiktust þær vegna einhvers sem þær átu," sagði Leraand í samtali við TV2.

Noregur beið lægri hlut gegn Þýskalandi í fyrsta leik mótsins og tapaði einnig fyrir Rúmeníu í riðlinum. Þær fóru því án stiga í milliriðilinn en voru samt sem áður aðeins einu marki frá því að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

„Veikindin höfðu líklega áhrif á nokkra leikmenn í fyrsta leiknum," bætti Leraand við en Þórir Hergeirsson vill ekki afsaka sig á sama hátt.

„Það er auðvelt að nefna eitthvað svona sem ástæðu fyrir því að við vorum ekki á tánum í upphafi mótsins. Ég vill ekki gera það. Ég vill horfa faglega á þetta og fyrst fá að heyra hvað leikmannahópurinn, þjálfarateymið og einstakir leikmenn hafa að segja áður en ég tjái mig um ástæðuna fyrir tapinu gegn Þýskalandi," sagði Þórir. 


Tengdar fréttir

Noregur hefja titilvörnina á tapi á Evrópumótinu

Norska kvennalandsliðið í handbolta undir stjórn Þóris Hergeirssonar hófu titilvörn sína á Evrópumótinu með eins marks tapi gegn Þjóðverjum en mótið fer fram Frakklandi.

Þórir í vandræðum í Frakklandi

Þórir Hergeirsson og leikmenn hans í norska kvennalandsliðinu í handbolta eru í vandræðum eftir átta marka tap gegn Rúmeníu í kvöld á EM í handbolta, 31-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×