Erlent

Árásarmaðurinn í Pittsburgh lýsir yfir sakleysi sínu

Andri Eysteinsson skrifar
Tree of Life bænahúsið sem Robert Bowers réðst á síðasta laugardag.
Tree of Life bænahúsið sem Robert Bowers réðst á síðasta laugardag. EPA / Jared Wickenham
Robert Bowers, maðurinn sem er grunaður um að hafa myrt ellefu manns í skotárásinni á Tree of Life bænahúsið í Pittsburgh um síðustu helgi, hefur lýst yfir sakleysi sínu. Washington Post greinir frá.

Bowers var ákærður í 44 liðum og á yfir höfði sér dauðarefsingu. Bowers óskaði eftir því að réttað yfir honum væri með kviðdóm.

Réðst inn þungvopnaður

Rétt fyrir klukkan 10 um morgun, laugardaginn 27. október réðst vopnaður maður inn í Tree of Life bænahúsið í Squirrell Hill hverfinu í Pittsburgh, næststærstu borgar Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.

Maðurinn var vopnaður AR-15 riffli og þremur Glock skammbyssum og skaut að sögn vitna nær stanslaust í 20 mínútur á meðan hann öskraði „Allir gyðingar verða að deyja.“

Níu mínútum eftir að árásin hófst mætti lögregla á svæðið, tveimur tímum síðar gaf maðurinn sig fram til lögreglu.

Maðurinn var hinn 46 ára gamli Robert Gregory Bowers

Bowers reyndist vera virkur á samfélagsmiðlum þar sem nýnasistar og fleiri öfgamenn skiptast á skoðunum. Þar hafði Bowers til að mynda skrifað margar færslur þar sem hann kenndi gyðingum um það sem amar að heiminum. 

Gæti játað verknaðinn seinna í dómsferlinu

Bowers var ákærður eins og áður sagði í 44 liðum, þar á meðal fyrir ellefu morð. Bowers var leiddur fyrir dómara í dag og lýsti þar yfir sakleysi sínu. Lögmaður Bowers, Michael Novara mælti fyrir hans hönd.

Lagaprófessorinn, Eric M. Freedman hjá lagadeild Hofstra háskólans, sagði í viðtali við Wall Street Journal, að þetta væri algengt, sé verjandi ákærða hæfur lögmaður, gangist ákærði ekki við neinu fyrr en að verjandi telur sig hafa kynnt sér málsatvik að fullu.

Bowers gæti hugsanlega játað á sig verknaðinn seinna í ferlinu í þeim tilgangi að sleppa við dauðarefsingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×