Erlent

Stuðningur við Macron fer dvínandi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Leiðin hefur legið niður á við hjá forsetanum síðan hann tók við völdum.
Leiðin hefur legið niður á við hjá forsetanum síðan hann tók við völdum. vísir/ap
Stuðningur við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, fer ört dvínandi en í skoðanakönnun Ifop sem gerð var að beiðni franska dagblaðsins Le Journal du Dimanche kemur fram að aðeins 29% voru ánægðir með störf forsetans af þeim sem spurðir voru.

Sambærileg könnun var framkvæmd í síðasta mánuði þar sem kom fram að 34% væru ánægðir með störf forsetans og þá sýndi könnun sem framkvæmd var í júlí fram á það að 39% væru ánægðir með forsetann sem sýnir að leiðin hefur legið niður á við frá því hann tók við völdum.

Macron sigraði forsetakosningarnar árið 2017 með 66,1% atkvæða. Ýmsir þættir skýra dvínandi stuðning við forsetann en það var honum mikið áfall þegar umhverfisráðherra landsins, Nicolas Hulot, sagði af sér. Þá tilkynnti Gerard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands og einn af nánustu samstarfsmönnum Macrons,  fyrir skömmu að hann hygðist bjóða sig fram til borgarstjóra Lyon árið 2020.

Macron hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir efnahagsstefnu sína sem margir af kjósendum hans segja að sé aðeins til góða fyrir hina ríku og fyrirtækjunum. Þá voru margir alls ekki hrifnir í síðustu viku þegar hann sagði atvinnulausum manni að hann gæti auðveldlega fengið vinnu ef hann reyndi.

Skoðanakönnun Ifop var keyrð út dagana 14-22. september og svarfjöldi var 1.964.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×