Innlent

Ráðherra ekki tekið ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað

Atli Ísleifsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Fréttablaðið/Ernir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort að nýföllnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sérfræðilæknis gegn ríkinu verði áfrýjað. Svandís fundaði með ríkislögmanni nú síðdegis vegna málsins.

Héraðsdómur felldi úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna umsókn Ölmu Gunnarsdóttur, sérfræðings í háls- nef- og eyrnalækningum, um aðild að rammasamningi SÍ og sérgreinalækna. Þá var íslenska ríkinu gert að greiða Ölmu 1,8 milljón krónur í málskostnað.

Heyrði ýmis sjónarmið, með og á móti

Svandís segir að á fundinum í dag hafi verið farið yfir niðurstöðu dómsins. „Ég hef enn ekki tekið afstöðu til áfrýjunar en heyrði ýmis sjónarmið, bæði með og á móti, þannig að ég þarf að taka mér einhvern tíma til að meta þetta mál,“ segir Svandís og gerir ráð fyrir að niðurstaða varðandi áfrýjun muni liggja fyrir á næstu dögum.

„Það er mikilvægt og gott að það sé komin botn í þetta mál. Við sjáum með þessum dómi að þetta fyrirkomulag sem hefur verið er ótækt af svo mörgum ástæðum. Bæði þessi gerð af samningum, framkvæmd þeirra og svo sjáum við að tilraunir þriggja ráðherra á samningstímanum til að stýra samningnum virðast hafa verið byggðar á sandi. Það er í raun það sem dómurinn fjallar um.“

Þurfa að ræða vernig skuli bregðast við dómnum

Svandís segir að bæði Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið þurfi nú að ræða saman um hvernig skuli bregðast við dómnum. Samningurinn renni út um næstu áramót og þurfi að ná saman um annað fyrirkomulag.

„Núverandi fyrirkomulag virkar ekki eins og fram kemur í dómnum. Það þarf að ná betur utan um íslenskt heilbrigðiskerfi og ekki síst þennan þátt sem lýtur að kaupum ríkissins á heilbrigðisþjónustu og að það sé í einhverju samræmi við þarfagreiningu og faglegt mat á hverjum tíma. En um leið þarf það að taka mið af fjárlögum. Öll þessi sjónarmið þurfa að vera undir í nýju kerfi,“ segir Svandís.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×