Erlent

Eftirmaður Johns McCain skipaður

Kjartan Kjartansson skrifar
Kyl (t.v.) með McCain árið 2011. McCain lést 25. ágúst.
Kyl (t.v.) með McCain árið 2011. McCain lést 25. ágúst. Vísir/EPA
Ríkisstjóri Arizona-ríkis í Bandaríkjunum hefur skipað fyrrverandi öldungadeildarþingmann repúblikana til að taka við þingsæti Johns McCain sem lést í síðasta mánuði. Eftirmaður McCain ætlar sér hins vegar aðeins að sitja út árið.

Það féll í skaut Doug Ducey, ríkisstjóra Arizona, að skipa eftirmann McCain eftir að hann lést af völdum krabbameins fyrir rúmri viku. Ducey, sem er repúblikani, skipaði Jon Kyl, fyrrverandi öldungadeildarþingmann flokksins, og sagðist vona að hann myndi verma þingsætið að minnsta kosti út þetta ár og vonandi lengur.

Washington Post segir að skipan Kyl veiti repúblikönum öruggt atkvæði í öldungadeild þingsins þegar mest ríður á. Þingmenn fjalla nú um dómaraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseta til hæstaréttar landsins. Repúblikanar hafa tveggja manna meirihluta í öldungadeildinni en McCain hafði misst af þingstörfum allt þetta ár vegna veikinda sinna. McCain var nokkuð gagnrýninn á Trump forseta þó að hann greiddi að mestu leyti atkvæði með forsetanum í þinginu. Kyl er einnig sagður hafa viðrað efasemdir um Trump, en ekki gengið eins langt og McCain.

Kyl sat í öldungadeildinni frá 1995 til 2013. Hann hefur síðan unnið sem málafylgjumaður fyrir lyfja- og hergagnafyrirtæki. Hann hefur þó ekki skuldbundið sig til að sitja lengur en til loka þessa þings. Ástæðan fyrir því að hann hætti á þingi til að byrja með hafi verið sú að hann hafi viljað eyða meiri tíma með fjölskyldunni.

Aukakosning um þingsæti McCain fer fram árið 2020. Kjörtímabili hans lýkur árið 2022 og þá verður aftur kosið um sætið.


Tengdar fréttir

John McCain látinn

Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn John McCain er látinn, 81 árs að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×