Handbolti

Haukur ekki á förum í atvinnumennsku alveg strax

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Þrastarson verður í Olís-deildinni í vetur.
Haukur Þrastarson verður í Olís-deildinni í vetur. fréttablaðið/eyþór
Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss í Olís-deild karla í handbolta, sló rækilega í gegn á Evrópumóti U18 ára landsliða sem lauk á sunnudaginn en þar hafnaði íslenska liðið í öðru sæti.

Ungu strákarnir urðu sjöunda íslenska handboltalandsliðið sem vinnur til verðlaun á stórmóti og það fimmta í yngri landsliðum en þessir sömu strákar unnu Sparkassen-mótið á síðasta ári.

Haukur vakti verðskuldaða athygli á mótinu en þjálfari þýska landsliðsins sagði hann besta leikmanninn á EM og danskur úrvalsdeildarleikmaður sagði að hann hefur aldrei séð betri leikmann á þessum aldri. Haukur er 17 ára gamall og var valinn besti leikmaður mótsins.

Ungir og efnilegir leikmenn eru eðlilega eftirsóttir og þó að atvinnumennskan heilli er þetta 2001 módel sem var einn allra besti leikmaður Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð ekkert að drífa sig út.

„Ég er bara að hugsa um Selfoss núna. Ég er á flottum stað þar með flotta umgjörð og flotta þjálfun. Það kemur bara að því [atvinnumennskunni] seinna. Ég er voða lítið að spá í því núna,“ sagði hann í viðtali á RÚV í gærkvöldi.

Selfoss mætir FH á Ragnarsmótinu á Ásvöllum í Hafnarfirði klukkan 20.00 en leikstjórnandinn ungi fær væntanlega hvíld þar. Selfoss mætir ÍR í fyrstu umferð Olís-deildarinnar miðvikudaginn 12. september.


Tengdar fréttir

Silfurstrákar bjuggust við að ná langt

Ísland náði í sín fimmtu verðlaun á stórmótum yngri landsliða karla í handbolta þegar U-18 ára liðið varð í 2. sæti á EM í Króatíu sem lauk um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×