Erlent

Ráðgjafi Trump segir Trudeau hafa stungið forsetann í bakið

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Justin Trudeau.
Donald Trump og Justin Trudeau. Vísir/AP
Larry Kudlow, efnahagsráðgjafi Hvíta hússins, hefur sakað Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, um að svíkja Donald Trump og stinga hann í bakið eftir fund G7 ríkjanna í gær. Þetta sagði Kudlow í viðtali á CNN í dag þar sem hann sagði einnig að Trump hefði ekki viljað sýna veikleika í aðdraganda fundar hans og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.



Það sé ástæðan fyrir því að Trump hafi kallað Trudeau „óheiðarlegan“ og „auman“ í tístum í nótt, eftir að Trudeau lýsti því yfir að Kanada myndi bregðast við tollum Bandaríkjanna á innflutt stál og ál. Kanada myndi ekki láta ráðskast með sig.



Kudlow sagði að ummæli Trudeau hefði í rauninni verið óleikur gagnvart öllum G7 ríkjunum. Að þau hefðu verið „barnalegur leikur“ og þeim hefði verið ætlað að skora pólitísk stig heima fyrir. Þó sagðist Trudeau hafa sagt þetta við Trump á fundinum og sömuleiðis á undanförnum dögum.

Allt virðist þetta þó vera hægt að rekja til fundar Trump og Kim en báðir eru nú staddir í Singapúr þar sem þeir munu hittast á þriðjudaginn.

Kudlow sagði að Trump ætlaði alls ekki að „láta kanadískan forsætisráðherra ráðskast með sig“ í aðdraganda fundarins.

„Hann mun ekki leyfa veikleika að sjást á leiðinni á samningafund við Norður-Kóreu,“ sagði Kudlow.



Annar ráðgjafi Trump, Peter Navarro, var á Fox í morgun þar sem hann vandaði Trudeau ekki kveðjurnar. Navarro sagði það rétt af Trump að draga undirskrift sína við sameiginlega yfirlýsingu ríkjanna sjö til baka. Það hefði verið „sósíalista-plagg“. Þá sagði hann „sérstakan stað í helvíti“ fyrir erlenda þjóðarleiðtoga sem reyndu að semja við Trump í „slæmri trú“ og ræki svo rýting í bakið á honum á leiðinni út. Það hefði Trudeau gert um helgina.


Tengdar fréttir

Kostuleg mynd Merkel slær í gegn

Á myndinni má sjá Donald Trump Bandaríkjaforseta sitja með krosslagðar hendur og Merkel stendur yfir honum.

Trump stal senunni

Allra augu eru á Trump Bandaríkjaforseta á fundi leiðtoga G7-ríkja í Kanada. Kvartaði yfir ósanngjörnum viðskiptaháttum og vildi Rússa aftur að borðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×