Erlent

Giuliani kastar olíu á eldinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Stormy Daniels.
Donald Trump og Stormy Daniels. Vísir/AFP
Rudy Giuliani, lögmaður Donald Trump og náinn ráðgjafi hans, virðist hafa beintengt 130 þúsund dala greiðslu til klámstjörnunnar Stormy Daniels við kosningabaráttu Trump árið 2016. Greiðslan er til rannsóknar hjá Alríkislögreglu Bandaríkjanna þar sem að um greiðslu til framboðs Trump gæti hafa verið að ræða. 130 þúsund dalir er mun meira en löglegt er að leggja til framboðs.

Forsetaframbjóðendum er heimilt að leggja fram eins mikið af eigin fé til kosningabaráttunnar og þeir vilja. Hins vegar verða þeir að veita kosningayfirvöldum Bandaríkjanna upplýsingar um þær upphæðir, samkvæmt umfjöllun Politico.



Michael Cohen, lögmaður Trump til langs tíma, greiddi Daniels peningana í aðdraganda kosninganna og var það til þess að þagga niður sögu hennar um framhjáhald hennar og Trump árið 2006. Daniels, sem heitir í raun Stefanie Clifford, hefur haldið því fram að hún hafi haft kynmök við Donald Trump það ár. Ári eftir að hann kvæntist Melaniu Trump og nokkrum mánuðum eftir að hún fæddi son þeirra.

Cohen sagði fyrst að hann hefði notað eigin peninga til að greiða Daniels og vildi ekki segja af hverju. Hann og Trump hafa þó ávalt neitað því að forsetinn hafi sængað hjá Daniels. Trump sagði fjölmiðlum að hann hefði ekki vitað af greiðslunni á sínum tíma og að hann hefði ekki endurgreitt Cohen.

í gærkvöld sagði Giuliani svo, þvert á allar fyrri yfirlýsingar Trump-liða, að forsetinn hefði endurgreitt Cohen. Með því hélt Giuliani því fram að greiðslan hefði ekki komið úr kosningasjóði Trump og hún hefði ekki komið kosningunum við.

Sjá einnig: Trump endurgreiddi lögmanninum þagnargreiðsluna

Trump tísti svo um málið í dag þar sem hann fylgdi Giuliani eftir. Hann sagði peningana ekki hafa komið úr kosningasjóði sínum og að samningar sem þessir væru algengir meðal frægs fólks. Hann sagðist hafa greitt Daniels svo hún myndi ekki dreifa „fölskum“ ásökunum sínum.

Giuliani var aftur í viðtali á Fox í dag þar sem hann kastaði olíu á eldinn, aftur. Þar gaf hann sterklega í skyn að Cohen hefði greitt Daniels vegna kosninganna og sömuleiðis að Trump hefði ekki vitað af því.

„Ímyndið ykkur ef þetta hefði orðið opinbert þann 15. október 2016,“ sagði Giuliani um framhjáhaldið sem á ekki að hafa átt sér stað. „Í miðjum, þið vitið, síðustu kappræðunum við Hillary Clinton. Cohen spurði engan. Hann lét málið bara hverfa.“

Eins og áður segir var ummælum Giuliani í gær ætlað að koma því á framfæri að umrædd greiðsla hefði ekki komið úr kosningasjóði Trump og hefði ekki komið kosningunum við. Með því opinberaði hann að Trump og starfsmenn hans höfðu lengi logið um vitneskju Trump af greiðslunni. Innan við sólarhring síðar tengir hann greiðsluna þó beint við kosningabaráttuna.


Tengdar fréttir

Trump endurgreiddi lögmanninum þagnargreiðsluna

Rudy Giuliani segir að Donald Trump hafi endurgreitt lögmanni sínum, Michel Cohen, þá 130 þúsund dali sem varið var til að þagga niður í klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×