Erlent

Róhingjar geti ekki snúið aftur til heimkynna sinna

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Úr flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess.
Úr flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess. Vísir/AFP

Ursula Mueller, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðarmála, segir stjórnvöld í Mjanmar ekki reiðubúin til að taka á móti flóttafólki úr þjóðflokki RóhingjaReuters greinir frá. 

Nærri 700.000 Róhingjar hafa flúið Rakhine-hérað Mjanmar frá því að þjóðernishreinsanir mjanmarska hersins á þeim hófust í ágúst á síðasta ári. Flestir hafa farið til Bangladess en stjórnvöld í Mjanmar og Bangladess náðu samkomulagi í nóvember um að Róhingjar á flótta myndu snúa aftur til heimkynna sinna í Mjanmar innan tveggja ára.

Stjórnvöld í Mjanmar segja að þeim sé nú óhætt að snúa til baka en staðan hefur ekki batnað að mati Sameinuðu þjóðanna. Enn hefur enginn snúið heim.

Barn í Thyangkhali-flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess.Vísir/AFP

Mueller, sem lauk nýverið sex daga ferðalagi um Mjanmar, segir að Róhingjar hafi ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu, lifi við mikið óöryggi og að ótækt sé fyrir fólkið að snúa aftur við núverandi aðstæður. Þá bendir hún á að eitt helsta vandamálið sé að mjanmarski stjórnarherinn hafi lagt að minnsta kosti 55 þorp þeirra í rúst. 

„Ég sá svæði þar sem þorp höfðu verið brennd niður og lögð í rúst. Ég hef hvorki séð né heyrt eitthvað sem bendir til þess að fólkið geti snúið til síns heima,“ sagði Mueller. Stjórnvöld í Mjanmar segja að þorpin hafi verið jöfnuð við jörðu til að rýma fyrir flóttamannabúðum.

Ríkisstjórn Mjanmar hefur hafnað því að þjóðflokkurinn kallist Róhingjar og kallar þá þess í stað Bengala. Þarlend stjórnvöld líta svo á að Róhingjar séu ólöglegir innflytjendur frá Bangladess.


Tengdar fréttir

Róhingjar funduðu með yfirvöldum

Ríflega 5.000 Róhingjar sem fastir eru á landsvæði sem liggur á milli Bangladess og Mjanmar, og hvorugt ríkið gerir tilkall til, fengu í gær heimsókn frá sendiboðum beggja ríkja.

Hyggjast refsa sextán fyrir Róhingjamorð

Yfirvöld í Mjanmar ætla að refsa sjö hermönnum, þremur lögreglumönnun og sex almennum borgurum sem voru viðriðnir dráp á Róhingjum í Rakhine-héraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×