Erlent

Flugu fjölskylduhundinum til Japan fyrir mistök

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hundavandræði United Airlines halda áfram.
Hundavandræði United Airlines halda áfram. Vísir/AFP
Bandaríska flugfélagið United Airlines rannsakar nú mál fjölskyldu frá Kansas-ríki en hundi fjölskyldunnar var flogið til Japan fyrir mistök.

Fjölskyldan flaug frá Oregon til Kansas-borgar í Missouri á þriðjudag. Þegar á áfangastað var komið hugðust fjölskyldumeðlimir sækja hund sinn sem þau höfðu einnig innritað í flugið. Í stað hundsins Irgo, sem er þýskur fjárhundur, fékk fjölskyldan afhentan hund af tegundinni stóra dana (e. Great Dane).

Fjölskyldunni var gert kunnugt um að mistök hefðu orðið við flutninga á báðum hundum og þeim víxlað við innritun. Irgo hafði verið flogið til Japan, þangað sem Stóri Daninn átti að fara en sá var mættur til Kansas-borgar. Irgo var sendur til baka skömmu eftir komuna til Japan.

Þetta eru önnur mistök tengd hundi sem flugfélagið United Airlines glímir við í vikunni. Flugfélagið sagðist bera fulla ábyrgð á því að hundur farþega hafi drepist í einni af vélum félagsins á mánudag.

Flugþjónn í vélinni er sagður hafa krafist þess að taskan sem hundurinn var geymdur í yrði sett í farangurshólfið fyrir ofan sæti farþegans, þar sem hundurinn svo kafnaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×