Erlent

Biður um styrki til að standa straum af lögfræðikostnaði vegna kynferðisbrots

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Moore hefur ímugust á samkynheiðgum og múslimum og hefur tvisvar verið vikið úr embætti dómara.
Moore hefur ímugust á samkynheiðgum og múslimum og hefur tvisvar verið vikið úr embætti dómara. vísir/getty
Roy Moore, sem beið ósigur í þingkosningunum í Alabama í desember síðastliðnum, biðlar nú til almennings um fjárhagsaðstoð. Kona, sem heldur því fram að Moore hafi misnotað hana kynferðislega þegar hún var 14 ára, hefur stefnt honum fyrir meint brot og óskar Moore því eftir fjárframlögum til að standa straum af lögfræðikostnaði.

Töluverður fjöldi kvenna steig fram í aðdraganda þingkosninganna í desember og sakaði Moore um kynferðislega áreitni og/eða –ofbeldi. Brotin áttu mörg að hafa átt sér stað þegar konurnar voru unglingar. Moore naut stuðnings Donald Trump Bandaríkaforseta í kosningabaráttunni þrátt fyrir ásakanirnar.

Í færslu sem Moore birti á Facebook-síðu sinni í vikunni þakkaði hann stuðningsmönnum sínum. Þá bað hann almenning um að láta fé af hendi rakna til baráttunnar við „lögfræðinga frá Washington DC og San Fransisco.“ Moore sagði lögfræðingana ætla að „tryggja að hann myndi aldrei berjast aftur.“

„Lögfræðingar mínir vilja hjálpa en því fylgir kostnaður. Fyrir utan gjöldin þá gæti lögfræðikostnaður numið yfir 100 þúsund Bandaríkjadölum. Ég verð að koma á fót sjóði, allt sem þið getið gefið yrði vel þegið.“

Demókratinn Doug Jones fór með sigur af hólmi í þingkosningunum í Alabama í desember síðastliðnum. Jones safnaði yfir 10 milljón Bandaríkjadölum fyrir kosningaherferð sína en Moore aðeins um 1,7 milljón dölum.


Tengdar fréttir

Moore segir Bandaríkjamenn hafa hafnað guði

Frambjóðandi repúblikana í Alabama neitar enn að viðurkenna ósigur í kosningunum og bölsótast út í samkynhneigð og fóstureyðingar í myndbandsávarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×