Erlent

Allt að 25 gráðum hlýrra en vanalega í hitabylgju á norðurskautinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Óvanaleg hlýindi hafa komið síðustu vetur á norðurskautinu. Hafísinn var í lágmarki fyrir árstíma þar í janúar. Myndin er úr safni.
Óvanaleg hlýindi hafa komið síðustu vetur á norðurskautinu. Hafísinn var í lágmarki fyrir árstíma þar í janúar. Myndin er úr safni. Vísir/AFP

Hiti á norðurskautinu hefur á sumum stöðum verið meira en 25°C hærri en vanalega í febrúar. Norðan 80. breiddargráðu norður hefur meðalhitinn verið um 6°C hærri á fyrstu mánuðum ársins en í venjulegu árferði.

Washington Post segir frá því að hitinn á Morris Jesup-höfða, nyrstu veðurathugunarstöð heims nyrst á Grænlandi, hafi verið yfir frostmarki í meira en sólahring frá mánudegi fram á þriðjudag. Það gerist þrátt fyrir að sólin hafi sest þar í október og rísi ekki aftur fyrr en í mars.

Ástæðan er rakin til hlýs lofts sem flæðir úr öllum áttum inn á norðurskautið. Í norðurhluta Alaska hefur hitastigið verið allt að 25°C yfir meðaltali. Hitamet fyrir árstíma var slegið í Utquagvik þar sem hitinn náði -1°C. Það er 22°C yfir meðaltali þar.

Hitinn gæti farið yfir frostmark á norðurpólnum
Útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu hefur aldrei mælst minni miðað við árstíma nú í janúar samkvæmt tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA).

Hlýindakaflar af þessu tagi hafa verið reglulegir viðburðir á norðurskautinu síðustu vetur. Hitinn mældist langt yfir meðaltali veturna 2015 til 2016 og 2016 til 2017. Loftslagslíkön spá því að hlýindi af þessu tagi séu líklegri á hlýnandi jörðu þar sem hlýir loftstraumar eigi greiðari leið norður á bóginn þegar hafísinn á norðurskautinu hopar.

Spáð er áframhaldandi hlýindum á norðurskautinu næstu daga. Hitinn á sumum stöðum gæti orðið allt að 34°C hærri en vanalega. Á norðurpólnum sjálfum gæti hitinn jafnvel farið yfir frostmark á fimmtudag og sunnudag.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.