Erlent

Knattspyrnugoðsögnin George Weah verður forseti Líberíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
George Weah, nýr forseti Líberíu.
George Weah, nýr forseti Líberíu. Vísir/afp
Gert er ráð fyrir að fyrrverandi fótboltamaðurinn George Weah muni bera sigur úr býtum í forsetakosningunum í Afríkuríkinu Líberíu. 98,1 prósent atkvæða hafa verið talin og hefur Weah hlotið 61,5 prósent þeirra, að því er fram kemur í tilkynningu frá kjörstjórn ríkisins. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá.

Andstæðingur Weah, varaforsetinn Joseph Boakai, hefur hlotið 38,5 prósent talinna atkvæða. Weah vann fyrri umferð kosninganna í október með 38,4 prósent atkvæða en þá hlaut Boakai 28,8 prósent.

Weah mun taka við keflinu af Ellen Johnson Sirleaf, fyrsta kjörna kvenkyns forseta landsins. Sirleaf bar sigur úr býtum gegn Weah í forsetakosningunum árið 2005. Kosningarnar í ár marka fyrstu lýðræðislegu valdaskipti í Líberíu síðan árið 1944.

Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal stuðningsmanna Weah í höfuðborg Líberíu, Monróvíu, þegar tilkynnt var um nýjustu tölur.Vísir/AFP
Weah er 51 árs og spilaði fyrir fótboltalið á borð við AC Milan, Chelsea og Paris St. Germain á glæstum ferli sínum. Hann er eini fótboltamaður Afríkuríkis sem hlotið hefur gullknöttinn, Ballon D‘Or, en verðlaunagripurinn fellur í skaut besta knattspyrnumanns ársins.

Weah var valinn sá besti árið 1995 en lagði skóna á hilluna árið 2002 og sneri sér þá að stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Sonur George Weah semur við PSG

Sonur líberísku goðsagnarinnar George Weah hefur gert þriggja ára atvinnumannasamning við Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×