Erlent

Sáttum náð í rifrildinu um apasjálfsmyndirnar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Tvær af sjálfsmyndum Naruto
Tvær af sjálfsmyndum Naruto WIKIMEDIA
Makakíapinn Naruto tók sjálfsmyndir á myndavél ljósmyndara í skógi í Indónesíu árið 2011. Ekki er vitað hvort þetta hafi verið algjörlega óvart eða hvort apinn hafi gert sér grein fyrir því hvað hann væri að gera. Ljósmyndarinn David Slater átti myndavélina og varð hann frægur fyrir þessar myndir en margir voru ósáttir við notkun hans á myndunum.

Síðastliðin ár hefur verið deilt um það hver eigi raunverulega höfundarrétt að myndunum sem Naruto tók af sjálfum sér. Ljósmyndarinn hefur haldið því fram að hann eigi myndina, einhverjum fannst enginn eiga höfundarréttinn, PETA hélt því fram að apinn ætti réttinn að myndinni en aðrir sögðu að dýr gætu ekki átt höfundarrétt á ljósmynd.

Myndir sem Naruto tók hafa verið á Wikipedia í langan tíma og hefur hver sem er getað hlaðið þeim niður þaðan. Wikimedia sem standa að baki Wikipedia hafa hingað til neitað að taka út myndirnar þrátt fyrir beiðnir Slater, þar sem að þeirra mati ætti í raun enginn höfundarréttinn að þeim samkvæmt höfundarréttarlögum. Slater fór fram á að myndirnar yrðu fjarlægðar af vefnum þar sem hann hafi orðið fyrir tekjutapi vegna birtinganna og að það hafi kostað sig mikla peninga að að fara í þessa ferð til Indónesíu.

X

Frægustu sjálfsmynd apans má finna á síðu WikipediaSkjáskot
Dýraverndunarsamtökin PETA höfðuðu svo mál gegn ljósmyndaranum árið 2015 fyrir hönd apans en myndin hefur verið til sölu á heimasíðu hans í langan tíma, birst í bók hans og víðar. Litlar líkur voru taldar á því í byrjun að málið næði fram að ganga.

Aukin lagaleg réttindi fyrir dýr

Á mánudaginn náðist þó samkomulag í málinu á milli PETA og ljósmyndarans. David Slater samþykkti að gefa 25 prósent af öllum tekjum af sjálfsmyndum Naruto í framtíðinni, til hópa sem vernda makakíapana í þeirra náttúrulega umhverfi í Indónesíu. Send var út sameiginleg tilkynning um þessa niðurstöðu í sjálfsmyndamálinu.

„PETA og David Slater eru sammála um að þetta mál velti upp mikilvægum málum varðandi það að auka lagaleg réttindi fyrir dýr, markmið sem báðir aðilar styðja og munu áfram að vinna að því markmiði.“

Ekki kom fram hvort Slater ætlaði að gefa eitthvað af tekjunum sem hann hefur nú þegar fengið vegna sjálfsmyndanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×