Erlent

Mannréttindadómstóllinn: Rússneska löggjöfin ýtir undir andúð á samkynhneigðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mannréttindasamtök hafa ítrekað mótmælt löggjöfinni.
Mannréttindasamtök hafa ítrekað mótmælt löggjöfinni. vísir/epa
Rússnesk löggjöf sem bannar áróður fyrir samkynhneigð þar í landi mismunar fólki og ýtir undir andúð á samkynhneigðum.

Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu sem kvað upp dóm sinn í dag í máli þriggja rússneskra homma sem barist hafa fyrir réttindum samkynhneigðra í landi sínu. Löggjöfin er brot á Mannréttindasáttmála Evrópu samkvæmt dómnum.

Samkynhneigð var afglæpavædd í Rússlandi árið 1993 en fordómar í garð samkynhneigðra eru miklir. Þá geta þeir sem reka áróður fyrir samkynhneigð, eins og það er orðað í lagabálknum, átt yfir höfði sér háar sektir.

Mennirnir þrír sem fóru í mál við rússneska ríkið fyrir Mannréttindadómstólnum höfðu einmitt fengið sektir fyrir að mótmæla lögunum á árunum 2009 til 2012 en lögin tóku ekki gildi fyrr en árið 2013.

Að mati Mannréttindadómstólsins er löggjöfin brot á tveimur ákvæðum Mannréttindasáttmálans, það er annars vegar því sem tryggir tjáningarfrelsi og hins vegar því sem tryggir bann við mismunun. Þá hafnaði dómurinn þeirri málsvörn rússneska ríkisins að löggjöfin væri nauðsynleg til þess að vernda siðferði í landinu.

Þá dæmdi Mannréttindadómstóllinn rússneska ríkið til þess að greiða þremenningunum skaðabætur að upphæð allt að 2,6 milljónir króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×