Erlent

Árásin í London: Þriðji árásarmaðurinn nafngreindur

Atli Ísleifsson skrifar
Árásarmennirnir Youssef Zaghba, Khuram Shazad Butt og Rachid Redouane.
Árásarmennirnir Youssef Zaghba, Khuram Shazad Butt og Rachid Redouane. Vísir/AFP
Bresk yfirvöld hafa nú nafngreint þriðja árásarmanninn í hryðjuverkaárásinni í London á laugardag. Í frétt BBC segir að maðurinn hafi verið hinn marokkósk-ítalski Youssef Zaghba.

Áður hafði verið greint frá nöfnum hins 27 ára Khuram Butt og þrítuga Rachid Radouane, sem báðir fæddust í Pakistan en bjuggu í Barking, austur af bresku höfuðborginni.

Sjö manns létu lífið og 48 særðust í árás mannanna. Enn eru 36 hinna særðu á sjúkrahúsi og er ástand átján þeirra talið alvarlegt.

Í frétt Telegraph segir að Zaghba hafi verið handtekinn eftir að hafa reynt að komast til Sýrlands á síðasta ári. Ítalskir fjölmiðlar segja að Zaghba hafi verið handtekinn í Bologna, en móðir hans er ítölsk og býr þar.

Lögregla hafði skotið alla þrjá mennina til bana innan við átta mínútum frá því að fyrsta tilkynningin barst um að hvítum sendiferðabíl hafi verið ekið á gangandi vegfarendum á London Bridge. Eftir það fóru mennirnir úr bílnum og stungu fólk sem varð á vegi þeirra við Borough Market áður en þeir voru skotnir til bana.


Tengdar fréttir

Árásarmennirnir í London nafngreindir

Lögregluyfirvöld í London hafa gefið út nöfn tveggja af þremur árásarmönnum sem skotnir voru til bana í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á London Bridge á laugardagskvöld.

Árásin í London: Öllum sleppt úr haldi lögreglu

Lögregla í London hefur sleppt öllum, sem handteknir voru á sunnudag í tengslum við árásina á London Bridge og Borough Market á laugardagskvöld, úr haldi. Þá hefur annað fórnarlamb árásarinnar verið nafngreint.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×