Erlent

Hin ástralska Sara lét lífið í árásinni í London

Atli Ísleifsson skrifar
Sara Zelenak starfaði sem au pair í London.
Sara Zelenak starfaði sem au pair í London. Facebook
Hin 21 árs Sara Zelenak er annar ástralski ríkisborgarinn sem tilkynnt er að hafi látið lífið í hryðjuverkaárásinni í London á laugardag.

Ástralskir fjölmiðlar segja að Zelenak hafi komið frá Brisbane og starfað sem au pair í London. Vinnuveitendur hennar höfðu gefið henni frí á laugardagskvöldinu og var hún úti að skemmta sér með vini sínum þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða á London Bridge.

Sjö manns létu lífið og tugir særðust í árás laugardagsins, þar sem árásarmennirnir óku sendiferðabíl á London Bridge áður en þeir fóru út úr bílnum og stungu alla þá sem urðu á vegi þeirra í kringum Borough Market.

Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástralíu, staðfesti í morgun að tveir Ástralir hafi látið lífið í árásinni í London. Síðar greindi forsætisráðherrann Malcolm Turnbull að yfirvöld hafi verið í sambandi við fjölskyldu hinnar 21 árs Söru Zelenak og hinnar 28 ára Kirsty Boden, sem einnig lést í árásinni. Áður hafði verið greint frá því að Boden hafi látið lífið í árásinni.

Fjölskylda Söru hefur lýst henni sem mjög sérstakri og vinalegri sem gerði ekkert rangt.

Breskir fjölmiðlar segja frá því að Sara haft átt miða á tónleika bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande í Manchester þann 22. maí þar sem 22 manns fórust og tugir særðust í hryðjuverkaárás að þeim loknum. Sara fór hins vegar aldrei á tónleikana. Þá á hún einnig að hafa verið stödd nálægt Westminster brúnni þegar árásin var framin þar í mars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×