Erlent

Norður-Kórea sprengir upp Bandaríkin í nýju áróðursmyndbandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Máttur Norður-Kóreu er mikill, að eigin sögn.
Máttur Norður-Kóreu er mikill, að eigin sögn. Guardian
Ríkissjónvarp Norður-Kóreu hefur birt myndskeið frá hátíðahöldunum í tilefni 105 ára afmælis eilífðarþjóðarleiðtogans Kim Il-Sung á sunnudag þar sem nýtt áróðursmyndband var frumsýnt.

Í myndbandinu sést hvar kjarnorkusprengjum er sleppt á bandaríska stórborg og eldtungur gleypa landið - sem vakti ómælda ánægju viðstaddra. Myndbandið frá hátíðahöldunum má sjá hér að neðan en ljóst er að það á að sýna hernaðarlegan mátt Norður-Kóreu á miklum óvissutímum.

Bandaríkin og Norður-Kórea hafa verið í störukeppni síðustu vikur vegna ítrekaðra eldflaugatilrauna þeirra síðarnefndu. Ástandið á Kóreuskaganum er nú sagt svo eldfimt að hin minnsta ögrun annars hvors ríkisins gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér.

Sjá einnig: Varnarmálaráðherra segir flugskeytatilraun Norður Kóreumanna vera ögrun

„Nýlega hefur spennan á milli Bandaríkjanna og Suður-Kóreu annars vegar og Norður-Kóreu hins vegar aukist. Maður hefur það á tilfinningunni að átök gætu brotist út á hverri stundu,“ sagði Wang Yi, utanríkisráðherra Kína fyrr í vikunni.

Norður-Kóreumenn eru taldir búa yfir margvíslegum langdrægum eldflaugum sem skjóta má bæði frá landi og úr kafbátum en í áróðursmyndbandinu er dregin upp mynd af síðarnefndu aðferðinni.

Aðstoðarutanríkisráðherra Norður-Kóreu sagði í samtali við BBC á mánudag að ríkið myndi halda áfram að þróa flugskeyti og skjóta þeim á loft í tilraunaskyni. Norður-Kóreu myndi þannig ekki láta tilraunaflaugina um liðna helgi, sem sprakk nánast samstundis og henni var skotið upp, slá sig út af laginu.


Tengdar fréttir

Kínverjar uggandi yfir ástandinu á Kóreuskaga

Utanríkisráðherra Kína segir að átök gætu brotist út hvað úr hverju. Kínverjar skora á alla aðila að auka spennuna ekki. Bandaríkin sigla upp að Kóreuskaga og hafa sýnt mátt sinn undanfarið. Átök gætu leitt til flóttamannstraums.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×