Erlent

Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í NATO segir staðhæfingu Trumps fáránlega

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Frá fundi Merkel og Trump í Washington.
Frá fundi Merkel og Trump í Washington. vísir/getty
Ivo Daalder, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Norður-Atlandshafsbandalaginu (NATO) hefur lýst því yfir að staðhæfing Donalds Trumps þess efnis að Þjóðverjar skuldi Bandaríkjununum pening, sé fáránleg.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fundaði með Trump í Washington í gær en í kjölfar fundarins tísti Trump að fundurinn hefði gengið vel „en samt sem áður skuldar Þýskaland NATO og Bandaríkjunum háar fjárhæðir vegna öflugra og rándýrra varna sem Þýskalandi eru tryggðar.“

Ekki er þetta í fyrsta skipti sem Donald Trump byrstir sig yfir þeim háu fjárhæðum sem ívera Bandaríkjanna í NATO kostar þjóðina. Í aðdraganda forsetakosninganna gagnrýndi Trump NATO og gekk svo langt að fullyrða að bandalagið væri úrelt.

Hann sagði við stuðningsmenn sína að önnur ríki í NATO greiddu ekki sanngjarnan hlut, miðað við Bandaríkin.

Daalder, sem var sendiherra Bandaríkjanna í NATO frá árunum 2009 til 2013, sagði að það lægi í augum uppi að Trump hefði engan skilning á því hvernig fjármögnun NATO virkaði þar sem aðildarríkjum er í sjálfsvald sett að ákveða hversu mikið fjármagn þau greiða fyrir aðild.

Slíkt ætti að sjálfsögðu einnig við um Bandaríkin og því þeirra að ákveða hversu mikill hluti af landsframleiðslu rennur til NATO.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×