Erlent

Trump skammast yfir NATO þrátt fyrir gagnrýni Obama

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Barack Obama.
Donald Trump og Barack Obama. Vísir/EPA
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump gagnrýndi í dag NATO bandalagið og sagði aðra meðlimi þess ekki greiða nóg til starfsemi þess. Það gerði hann þrátt fyrir að hafa verið gagnrýndur fyrir ummæli sín um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og beðinn um að draga úr þeim.

Trump sagði stuðningsmönnum sínum að önnur ríki í NATO væru ekki að greiða sanngjarnan hlut. Annað hvort myndu önnur ríki greiða meira eða yfirgefa bandalagið. Ef það myndi valda því að NATO væri óstarfvirkt væri það allt í lagi.

Undanfarnar vikur hefur Trump gagnrýnt NATO harðlega og sagt að bandalagið sé úrelt.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, gagnrýndi Trump í gær fyrir ummæli sín varðandi utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það gerði hann eftir að Trump neitaði að útiloka beitingu kjarnorkuvopna í Evrópu og að Japan og Suður-Kórea gætu þurft á kjarnorkuvopnum að halda.

„Hver sem segir hluti sem þessa veit ekki mikið um utanríkismál, kjarnorkuvopn, Kóreuskagann, né heiminn allan,“ sagði Obama um Trump. Þá varaði hann forsetaframbjóðandann við því að heimurinn væri að fylgjast með kosningunum og orðum frambjóðenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×