Handbolti

Kretzschmar: Gerðum við nóg til að halda Degi?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson í útsendingu ARD í Þýskalandi með þeim Gerhard Delling og Stefan Kretzschmar.
Dagur Sigurðsson í útsendingu ARD í Þýskalandi með þeim Gerhard Delling og Stefan Kretzschmar. Mynd/Skjáskot
Stefan Kretzschmar, fyrrum landsliðsmaður Þýskalands og fjölmiðlamaður, segir að það sé mikil synd að Dagur Sigurðsson hafi ákveðið að hætta sem landsliðsþjálfari Þýskalands.

Dagur tilkynnti fyrr í vikunni að hann muni hætta sem þjálfari þýska liðsins eftir að HM, sem fer fram í Frakklandi, lýkur í næsta mánuði.

Dagur hefur síðustu vikurnar verið orðaður við landsliðsþjálfarastöðu Japans og á nú í viðræðum um að taka starfið að sér.

Sjá einnig: Dagur hættir með þýska landsliðið

„Það er mikil synd að hann sé að fara. Við höfum margsagt hversu gott það væri ef hann myndi vera áfram,“ sagði Kretzschmar við þýska fréttamiðilinn DPA.

„Hann hefur gert svo mikið fyrir þýskan handbolta að við verðum að bera virðingu fyrir ákvörðun hans,“ sagði hann enn fremur.

Dagur Sigurðsson ætlar að breyta til í sumar.Vísir/Getty
Undir stjórn Dags náði Þýskaland að gera sig gildandi í alþjóðlegum handknattleik á nýjan leik. Liðið varð Evrópumeistari í upphafi árs og vann svo til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar.

Kretzschmar segir að það sé ástæða til að staldra við á þessum tímamótum og íhuga hvort það hefði mátt gera meira fyrir Dag.

Sjá einnig: Hanning reiknar með brotthvarfi Dags

„Við verðum að spyrja okkur að því hvort að við í þýska handboltanum gerðum allt sem við gátum til að halda honum,“ sagði hann.

„En sem stendur óskum við þess að okkur muni ganga vel á HM í Frakklandi, til að geta þakkað Degi fyrir.“

Kretzschmar sendi Degi kveðju á Facebook-síðu sinni þar sem hann fer fögrum orðum um þjálfarnn og afrek hans með þýska landsliðið.


Tengdar fréttir

Hanning reiknar með brotthvarfi Dags

Nánasti samstarfsmaður Dags í Þýskalandi síðasta áratuginn telur að Dagur Sigurðsson færist nær ákvörðuninni að hætta.

Er arftaki Dags fundinn?

Þýskir fjölmiðlar segja að hinn 37 ára Christian Prokop verði næsti þjálfari þýska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×