Viðskipti innlent

Lárus hafi ákveðið að bjóða starfsmönnum bankans að kaupa hlutabréf í Glitni með lánum frá bankanum sjálfum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, sætir nú ákæru fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik.
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, sætir nú ákæru fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. vísir/anton brink
Fjórtán einkahlutafélög í eigu jafnmargra starfsmanna Glitnis banka fengu í maí árið 2008 lán frá bankanum upp á samtals 6,7 milljarða króna til þess að kaupa hlutabréf í Glitni. Bankinn sjálfur átti bréfin.

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri bankans, er ákærður fyrir umboðssvik vegna lánveitinganna en þær eru hluti af ákæru héraðssaksóknara í umfangsmiklu markaðsmisnotkunarmáli sem þingfest verður í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. apríl næstkomandi.

Fjallað er um lánveitingarnar í þriðja lið ákærunnar sem Vísir hefur undir höndum. Lánin til einkahlutafélaganna fjórtán eru mishá; þau lægstu nema 173.953.885 krónum en það hæsta nemur tæplega 800 milljónum króna. Samkvæmt lögum er einkahlutafélag félag þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Starfsmenn Glitnis, sem áttu félögin, voru því ekki ábyrgir fyrir lánunum.

Lárusi gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína

Lárusi er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína sem forstjóri Glitnis og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hann fór út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og veitti félögunum lán. Í ákæru segir að Lárus hafi veitt lánin án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar, án þess að endurgreiðsla lánanna væri tryggð í samræmi við ákvæði lánareglna bankans um töku trygginga fyrir útlánum og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþeganna.

Samkvæmt ákæru hafa félögin öll verið úrskurðuð gjaldþrota og verður því að telja öll lánin Glitni að fullu glötuð. Telur saksóknari að af framburði vitna, ákærðu og öðrum gögnum megi leiða að Lárus hafi tekið ákvörðun um að bjóða fjórtán starfsmönnum bankans að kaupa bréf í Glitni með fullri fjármögnun bankans. Var starfsmönnunum boðið að kaupa mismarga hluti en öll boðin áttu það sameiginlegt að „að bankinn lánaði fyrir viðskiptunum að fullu án þess að starfsmennirnir legðu fram eigið fé eða tryggingar fyrir lánunum.“

Jóhannes Baldurssonvísir/anton brink
Viðskipti sem byggðu á blekkingum og sýndarmennsku

Lárus er einnig ákærður fyrir markaðsmisnotkun vegna viðskiptanna sem einkahlutafélögin áttu með hluti í Glitni. Telur saksóknari að í viðskiptunum hafi það verið gefið ranglega til kynna að félögin hafi lagt fé til þeirra og þannig borið fulla markaðsáhættu af þeim „þegar kaup félaganna voru í raun fjármögnuð að fullu með lánveitingum frá bankanum,“ eins og segir í ákæru.

Glitnir hafi þannig bæði sem lánveitandi og seljandi hlutanna áfram borið fulla markaðsáhættu af þeim þar sem engar aðrar tryggingar voru fyrir hendi en seldu hlutirnir. Að mati ákæruvaldsins byggðust viðskiptin þannig á blekkingum og sýndarmennsku og voru líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutum í Glitni misvísandi og ranglega til kynna.



Markaðsmisnotkun á 16 mánaða tímabili


Lárus er svo einnig ákærður, ásamt fjórum öðrum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis, fyrir markaðsmisnotkun en sá hluti ákærunnar snýr að miklum kaupum eigin viðskipta bankans á hlutabréfum í Glitni frá 1. júní 2007 til 26. september 2008. Auk Lárusar er Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, ákærður sem og þrír fyrrverandi starfsmenn eigin viðskipta bankans.

Mönnunum er gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun með hlutabréf í Glitni með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í Kauphöllinni „sem tryggðu óeðlilegt verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega til kynna.“ Eiga starfsmenn eigin viðskipta Glitnis að hafa framkvæmt markaðsmisnotkunina að undirlagi Lárusar og Jóhannesar, eins og það er orðað í ákæru héraðssaksóknara.

Forstöðumaður eigin viðskipta ekki ákærður

Athygli vekur að Magnús Pálmi Örnólfsson, sem var forstöðumaður eigin viðskipta og gjaldeyrisstýringar Glitnis, er ekki ákærður í málinu en Jóhannes var næsti yfirmaður hans. Í sambærilegum málum sem sérstakur saksóknari (nú héraðssaksóknari) hefur höfðað gegn fyrrverandi stjórnendum í Kaupþingi og Landsbankanum voru fyrrverandi forstöðumenn eigin viðskipta ákærðir, og sakfelldir.

Ekki hafa fengist upplýsingar frá héraðssaksóknara varðandi það hvort Magnús Pálmi hafi á einhverjum tímapunkti haft stöðu sakbornings í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis og annað hvort samið sig frá ákæru á grundvelli 5. greinar laga um sérstakan saksóknara, eða þá að málið gegn honum hafi verið fellt niður.

Fram hefur komið að Magnús Pálmi samdi sig frá ákæru í Stím-málinu en þá breytti hann framburði sínum í yfirheyrslum og veitti sérstökum saksóknara upplýsingar gegn því að hann nyti friðhelgi frá saksókn í málinu.

Eins og áður segir verður markaðsmisnotkunarmál Glitnis þingfest þann 15. apríl næstkomandi en ákæra var gefin út þann 4. mars síðastliðinn. Nokkuð langur tími er því liðinn frá því meint brot áttu sér stað en Fjármálaeftirlitið kærði háttsemina sem málið snýst um til sérstaks saksóknara árið 2011.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×