Viðskipti innlent

MAST olli Brúneggjum tjóni en RÚV sýknað

Jón Þór Stefánsson skrifar
Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri Brúneggja
Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri Brúneggja

Landsréttur sýknaði Ríkisútvarpið en dæmdi Matvælastofnun til skaðabótaábyrgðar í dag í skaðabótamáli fyrrverandi eigenda Brúneggja. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað stofnanirnar tvær í málinu.

Málið varðar umfjöllun Kastljóss 28. nóvember 2016 um dýrahald og eggjaframleiðslu Brúneggja ehf. Fyrirtækið var í eigu bræðranna Kristins Gylfa og Bjarna Jónssona sem höfðuðu málið í gegnum félögin Bala ehf. og Geysi-Fjárfestingafélag ehf.

Landsréttur dæmdi MAST til skaðabótaábyrgðar í málinu, og þá er stofnuninni einnig gert að greiða Bala annars vegar og Geysi hins vegar fjórar milljónir hvoru um sig.

Að mati Landsréttar mátti MAST ekki afhenda RÚV gögn sem vörðuðu starfsemi Brúneggja.

Í dómnum segir að augljóst sé að strax í kjölfar þess að Kastljósþátturinn var sýndur hafi orðið hrun í sölu afurða Brúneggja. Slá megi því föstu að afhending stofnunarinnar á gögnum og yfirlýsingar starfsmanna hennar hafi orsakað þetta hrun.

Sérstaklega er minnst á nokkur ummæli yfirdýralæknis MAST sem að mati dómsins féll ekki innan hlutverks stofnunarinnar. Sú háttsemi var ólögmæt og saknæm samkvæmt Landsrétti.

Ummælin eru eftirfarandi:

  • „Það verður að segjast eins og er að það er ekkert bú í líkingu við Brúnegg. Víða er pottur brotinn, en, en ekki í þessum mæli.“ 
  • „Aðgerðum gegn Brúneggjum er ekki lokið. Við erum ennþá með fyrirtækið í, ja, ég ætla nú ekki að segja gjörgæslu, en, en við erum að fylgjast mjög vel með því.“ 
  • „Það kemur mér virkilega á óvart að menn skuli ekki bregðast við kröfum um úrbætur sem að opinber stofnun gerir á þá. Heldur gefi sig ekki fyrr en í fulla hnefana þegar á að fara að beita hörðustu þvingunum sem að, sem að til eru.“

Um umfjöllun Kastljóss segir Landsréttur að ekki verði séð að hún hafi verið efnislega röng, ekki haft fréttagildi eða erindi við almenning. Að því virtu þótti ekki hafa verið fært sönnur á að RÚV hefði sýnt af sér saknæma háttsemi.

Umfjöllun Kastljóss um Brúneggjamálið svokallaða vakti mikla athygli á sínum tíma. Tryggvi Aðalbjörnsson hlaut blaðamannaverðlaun fyrir þátt sinni í umfjölluninni árið 2017.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×