Viðskipti erlent

Dagar Workplace eru taldir

Árni Sæberg skrifar
Mark Zuckerberg er forstjóri Meta.
Mark Zuckerberg er forstjóri Meta. Anna Moneymaker/Getty

Meta, móðurfélag Facebook og fjölda annarra samfélagsmiðla, hefur tilkynnt að Workplace verði lokað. Félagið ætli að einbeita sér að þróun gervigreindar og svokallaðs Metaverse í staðinn.

Workplace, sem kalla mætti Vinnustaðinn á íslensku, er samskiptamiðill ætlaður til notkunar innan fyrirtækja. Forritið gerir starfsmönnum kleift að deila skjölum og öðru vinnutengdu sín á milli ásamt því að virka sem samfélagsmiðill innan fyrirtækja. 

Til að mynda nýta samstarfsmenn blaðamanns Workplace til þess að athuga hvað er í hádegismatinn og hvort hleðslustöð fyrir rafbíla sé að losna.

Gervigreind muni bylta vinnu

Í frétt CBS segir að Meta hafi sagt í tilkynningu að stjórnendur félagsins hafi trú á því að gervigreind félagsins og Metaversa, sýndarveruleikaheimur, muni bylta því hvernig vinna er unnin af hendi í framtíðinni. 

Því muni félagið hægt og rólega loka Workplace og einbeita sér að öðrum verkefnum. Fyrirtæki sem eru þegar í viðskiptum muni geta notað Workplace til 31. ágúst á næsta ári og verði eftir það boðið að færa viðskipti sín til Workvivo, sem er sambærileg vara úr smiðju Zoom. Gögn fyrirtækja á Workplace verði þó aðgengileg í eitt ár til.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×