Erlent

Pútín sést loks opinberlega

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Almazbek Atambayev, forseta Kirgisistans, funda nú í Pétursborg.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Almazbek Atambayev, forseta Kirgisistans, funda nú í Pétursborg. Vísir/Twitter
Vladimír Pútin og Almazbek Atambayev, forseti Kirgisistans, funda nú í Pétursborg, en þetta er í fyrsta sinn sem Pútín sést opinberlega frá 5. mars síðastliðinn.

Aðspurður um ástæður þess að hann hafi ekki sést opinberlega síðustu daga sagði Pútín: „Lífið hafði verið leiðinlegt án slúðurs.“

Atambayev sagði Pútín vera við hestaheilsu og hafi sjálfur setið undir stýri og ekið honum um Pétursborg. AP segir Pútín þó hafa verið fölan í framan.

Mikil spenna ríkti fyrir fund forsetanna enda höfðu vangaveltur verið uppi um forsetann þar sem menn veltu því fyrir sér hvort valdarán hafi verið framið í Moskvu, hvort hann væri veikur, hvort hann hefði tekið sér nokkurra daga frí þar sem hann hafi verið að eignast barn eða hvort hann væri yfir höfuð á lífi.

Að sögn FlightRadar 24 lenti forsetavél forsetans í Pétursborg í morgun. Varnarmálaráðherra Rússlands greindi frá því í morgun að Pútín væri starfandi og hann hafi fyrirskipað fjölmenna heræfingu í Norður-Íshafi í morgun.

Á vef Independent kemur fram að óháða rússneska sjónvarpsstöðin Dozhd TV hafi greint frá því að Pútín hafi verið með flensu síðustu daga og því ekkert látið á sér bera. Þar kemur fram að hann hafi í veikindum sínum dvalið í húsakynnum sínum í Valdai, skammt frá Moskvu. Rússneskir blaðamenn telja margir þetta líklegustu skýringuna þar sem sérstöku flugbannsvæði var komið á í kringum húsakynni forsetans.


Tengdar fréttir

Loftið í Kreml sagt vera lævi blandið

Hávær orðrómur um veikindi Pútíns fór af stað í vikunni eftir óvenjulanga fjarveru hans frá fjölmiðlum. Aðrir velta fyrir sér hvort harðvítugar innherjadeilur standi nú yfir í Kreml og hallarbylting sé jafnvel í vændum. Vandi er um slíkt að spá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×