Erlent

Þurfa ekki að rann­saka eitur­til­ræði við rúss­neskan and­ófs­mann

Kjartan Kjartansson skrifar
Vladímír Kara-Murza á sakamannabekk þegar hann var dæmdur í aldarfjórðungslangt fangelsi fyrir meint landráð í fyrra.
Vladímír Kara-Murza á sakamannabekk þegar hann var dæmdur í aldarfjórðungslangt fangelsi fyrir meint landráð í fyrra. Vísir/EPA

Dómstóll í Moskvu komst að þeirri niðurstöðu að rússneska rannsóknarlögreglan þurfi ekki að rannsaka tvær tilraunir til þess að ráða fangelsaðan stjórnarandstæðing af dögum í dag. Hann segir það lygi að lögregla hafi þegar rannsakað tilræðin.

Vladímír Kara-Murza afplánar nú tuttugu og fimm ára fangelsisdóm fyrir landráð sem hann hlaut fyrir að fordæma stríðsrekstur Rússa í Úkraínu í fyrra. Hann var náinn Boris Nemtsov, leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, sem var skotinn til bana í skugga veggja Kremlar árið 2015. Bandamenn Nemtsov sökuðu stjórnvöld um að standa að morðinu.

Skömmu eftir morðið á Nemtsov veiktist Kara-Murza heiftarlega og var lagður inn á sjúkrahús. Tveimur árum síðar komu læknar honum í dá og í öndunarvél eftir að svipuð einkenni blossuðu upp aftur. Rannsókn rannsóknarblaðamennskuhópsins Bellingcat leiddi í ljós að sama deild rússnesku leyniþjónustunnar FSB og eitraði fyrir Alexei Navalníj hefði veitt Kara-Murza eftirför.

Lögmenn Kara-Murza kröfðust þess að rannsóknarnefnd Rússlands, alríkisrannsóknarlögreglan, rannsakaði eiturtilræðin en því hafnaði hún. Borgardómstóll í Moskvu hafnaði áfrýjun hans á þeirri niðurstöðu í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Kara-Murza sagði fulltrúa rannsóknarlögreglunnar ljúga því að hún hefði rannsakað tilræðin og rætt við vitni. Hann ávarpaði dómstólinn í gegnum fjarfundarbúnað frá fangelsi í Síberíu þar sem honum er haldið.

Eiginkona Kara-Murza hefur sagst óttast um líf hans í fangelsinu. Hann þjáist af taugasjúkdómi eftir eitranirnar. Kara-Murza hlaut bandarísku Pulitzer-verðlaunin fyrir pistla sem hann skrifar fyrir Washington Post úr fangelsinu fyrr í þessum mánuði.

Alexei Navalníj, helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar eftir drápið á Nemtsov, lést í rússnesku fangelsi fyrr á þessu ári. Eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok árið 2020. Hann var um tíma í dái á sjúkrahúsi í Þýskalandi áður en hann sneri aftur til Rússlands þar sem hann var handtekinn og síðar sakfelldur fyrir alls kyns meinta glæpi.


Tengdar fréttir

Tuttugu og fimm ár fyrir að and­æfa inn­rásinni

Rússneskur dómstóll dæmdi þekktan andófsmann í 25 ára fangelsi í dag fyrir að gagnrýna stríðsrekstur þarlendra stjórnvalda í Úkraínu. Hann var sakfelldur fyrir landráð og að níða rússneska herinn. Mannréttindasamtök segja hann samviskufanga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×