Innlent

Ung stúlka skilaði sér ekki heim með ferðaþjónustu fatlaðra í dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Ung fötluð kona skilaði sér ekki til síns heima síðdegis í dag með ferðaþjónustu fatlaðra.
Ung fötluð kona skilaði sér ekki til síns heima síðdegis í dag með ferðaþjónustu fatlaðra. Vísir/Anton
Ung fötluð kona skilaði sér ekki til síns heima síðdegis í dag með ferðaþjónustu fatlaðra. Í ljós kom að hún hafði farið til nágrannakonu sinnar, sem býr í sama fjölbýlishúsi. Í tilkynningu frá Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, segir að þegar hafi verið brugðist við í samræmi við alvarleika málsins. Málið hafi þegar verið tekið til athugunar hjá neyðarstjórn ferðaþjónustu fatlaðra.

Sjá einnig: Starfsmönnum Strætó aftur kennt á kerfið á bak við ferðaþjónustu fatlaðra

„Við fyrstu athugun virðist verklagsreglum ekki hafa verið fylgt þegar notanda þjónustunnar var ekið til síns heima og ekki komið í öruggar hendur foreldra,“ segir Jóhannes í tilkynningunni.

Í samtali við Vísi segir Jóhannes að sennilega hafi liðið um klukkutími frá því að stúlkunni var komið í fjölbýlishúsið og þar til hún fannst. Það eigi eftir að ræða við bílstjórann um atvik málsins en svo virðist sem leiðbeiningum um meðferð stúlkunnar hafi ekki verið fylgt. Samkvæmt heimildum Mbl.is er um ellefu ára stúlku að ræða, en Jóhannes getur ekki staðfest það.

Líkt og greint hefur verið frá hafa mörg mistök og atvik komið upp hjá ferðaþjónustu fatlaðra undanfarna mánuði eftir að umfangsmiklar breytingar voru gerðar á þjónustunni. Var neyðarstjórn skipuð yfir þjónustunni í kjölfar þess að átján ára þroskaskert stúlka fannst í bíl ferðaþjónustunnar mörgum klukkutímum eftir að henni átti að hafa verið komið í Hitt húsið.


Tengdar fréttir

Strætó krossar fingur vegna ferðaþjónustu

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, bað Þórð Guðlaugsson og fjölskyldu hans afsökunar eftir að honum var ekið á rangan stað í gær og hann skilinn eftir. Þórður á bágt með að gera sig skiljanlegan en tókst að hringja í móður sína.

Svona týndist stúlkan

„Þetta er alveg hrikalega sorglegt atvik,“ segir eigandi fyrirtækisins sem sinnti akstri fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í dag þar sem 18 ára þroskaskert stúlka týndist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×