Viðskipti innlent

Aðstandendur Arðvis sagðir hafa nýtt sér vanþekkingu fjárfesta

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson (t.v.) og Bjarni Þór Júlíusson.
Ólafur Stefánsson (t.v.) og Bjarni Þór Júlíusson. Vísir/YouTube
Bjarni Þór Júlíusson og Úlfar Guðmundsson neituðu báðir sök við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjaness í morgun í máli embættis sérstaks saksóknara í gegn þeim.

Bjarni Þór og Úlfar eru ákærðir fyrir fjárdrátt en þeim er gefið að sök að hafa dregið sér fé með því að hafa sem fyrirsvarsmenn og prókúruhafar Costa og Ardvis ráðstafað fjármunum þeirra í eigin þágu og til greiðslu útgjalda sem voru ótengd rekstri félaganna. Nemur upphæðin rúmlega 41 milljón króna á 6 ára tímabili, á árunum 2007 til 2012.

Bjarni er auk þess ákærður fyrir meiriháttar bókhaldsbrot í störfum sínum fyrir Costa og Ardvis fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að varðveita fylgiskjöl með fullnægjandi hætti og vanrækt að færa tilskilið bókhald fyrir félagið.

Þingfesting fór fram í málinu í júlí í fyrra en ákæra embættis sérstaks saksóknara var afturkölluð vegna formgalla.

Ágóðinn átti að fara í góðgerðamál

Í ákæru embættis sérstaks saksóknara er rakinn aðdragandi þeirrar háttsemi sem Bjarna Þór og Úlfari er gefin að sök. Þeir tóku yfir stjórn félagsins Costa ehf. í nóvember 2006 þar sem þeir urðu stjórnarmenn félagsins en Bjarni Þór gegndi stjórnarformennsku. Engar breytingar urðu á stjórn félagsins fyrr en í mars árið 2010 þegar Bjarni fór úr sæti aðalmanns í sæti varamanns í stjórn og gerðist jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.

Arðvis hf. var stofnað þann 29. apríl árið 2010 og var Bjarni eini hluthafi félagsins að því er fram kemur í ákærunni en í ágúst árið 2010 voru hluthafarnir orðnir tveir, þeir Bjarni og Úlfar sem sátu jafnframt í stjórn Costa ehf. Það félag var síðan úrskurðað gjaldþrota þann 3. maí árið 2012.

Arðvis hf. fékk samkvæmt ákærunni vilyrði fyrir 125 milljóna króna í hlutfé og yfirverði hlutfjár á þremur og hálfu ári. Fyrstu samningar um kaup á hlutafé voru gerðir þann 1. ágúst árið 2007 eða löngu fyrir stofnun félagsins. Hluthafar lögðu fram fjármuni til félagsins á grundvelli loforða og fyrirheita sem gefin voru af ákærðu um tilgang og markmið félagsins um stofnun vefverslunar sem myndi láta ágóða renna til góðgerðamála.





Aðeins 340 þúsund krónur á reikning Arðvis

Embætti sérstaks saksóknara segir Arðvis hf. hafa einungis átt einn bankareikning í Sparisjóði Suður-Þingeyinga og staða bankareikningsins ekki sögð endurspegla þær fjárhæðir sem einstaklingar og lögaðilar höfðu greitt fyrir hlutabréf í félaginu. Við yfirferð á bankayfirliti miðað við 31. desember árið 2010 kom fram að einungis 340 þúsund krónur af greiddu hlutafé höfðu verið lagðar inn á reikning félagsins.

Tilgangur greiðslna lá ekki fyrir

Þá var Costa ehf skráð fyrir þremur reikningum í Landsbankanum hf., samkvæmt ákærunni, og segir embætti sérstaks saksóknara að svo virðist sem einn reikningur Costa ehf hafi verið notaður sem aðalreikningur beggja félaga. Á umræddum reikningi eru að finna millifærslur frá einstaklingum sem eru ekki á hluthafalista félaganna. Þannig eiga nokkrir einstaklingar að hafa greitt inn á reikning Costa, að minnsta kosti 3,6 milljónum króna, án þess að tilgangur greiðslna liggi fyrir. Þá hafa borist samtals 2,7 milljónir króna inn á reikning félagsins frá hluthöfum, umfram það sem samningar þeirra um kaup á hlutabréfum í félaginu kveða á um.





Fjármagnið fari í hringi

Forsvarsmenn félaganna hafa sagt tilgang Costa ehf. að stofna Arðvis hf. og átti Costa ehf. að safna fjármagni til að reka Arðvis hf. sem þjónustuaðila fyrir Corpus Vitalis samtökin. Fjármagn Arðvis hf. átti síðan að nota til rekstur Costa ehf. Segir embætti sérstaks saksóknara að af þessu sé ljóst að fjármagnið fari í hringi.

„Hvergi er í kaupsamningum fjallað um hugsanlegan eignarrétt hluthafa Costa ehf. á hlutabréfum í Arðvis hf. eins og auglýst er í kynningum og hvergi er að finna í samþykktum félaganna ákvæði sem heimila framsal eignaréttinda og ekki liggjaf fyrir upplýsingar um eignatengsl eða samstarfssamninga milli þeirra að öðru leyti en því að sömu einstaklingar eiga meirihluta í báðum félögum. Erfitt er að sjá hvernig Costa ehf., sem nú er gjaldþrota, ætlar að framfylgja ofangreindum áætlunum sínum,“ segir í ákæru embættis sérstaks saksóknara.

Fengu 200 milljónir

Þá kemur fram að í ákærunni að félögin tvö, Arðvis hf. og Costa ehf, fengu greiddar tæplega 200 milljónir króna inn á bankareikninga sína á tímabilinu 2010 til og með apríl 2012. Í yfirliti yfir bankareikninga þeirra er að finna færslur sem virðast vera vegna einkaneyslu og eru nefndar færslur vegna leigu einbýlishúsi í einkaeigu í Fannafold sem Bjarni Þór Júlíusson tilgreinir sem heimilisfang sitt á samningum um sölu hlutabréfa þrátt fyrir að lögheimili hans sé skráð á Seltjarnarnesi. Þá segir embættið fjármuni félaganna oft notaða til að greiða fyrir aðgang að sundlaugum, sólbaðsstofum, líkamsræktarstöðvum, kaup á bíómiðum og fleira.

Ekki ljóst hvað taldist til launa

Segir embættið fyrirliggjandi framburð vitna benda til þess að Bjarni hafi engan greinarmun gert á fjármunum félaganna Costa ehf. og Arðvis hf. og persónulegum fjármunum sínum. Auk þess kemur fram í ákærunni að samningar um launakjör Bjarna hefðu verið mjög á reiki og ekki unnt að festa hendur á hvað teldist til launa og annarra hlunninda svo sem hvað varðar bifreiðahlunnindi og fatapeninga.

Ólafur Stefánsson.Vísir/Daníel
Sagðir hafa nýtt sér vanþekkingu fjárfesta

Þá er það jafnframt ætlun ákæruvaldsins að þeir fjárfestar sem lögðu fjármagn til félaganna í formi hlutafjár hafi gert það í þeim tilgangi sem þeim var kynntur, oftast af ákærða Bjarna, sem var áhættufjárfesting í félagi sem starfaði að þróun og gerð upplýsingakerfa í tengslum við sölu og viðskipti á veraldarvefnum og myndi hluti ágóðans renna til góðgerðamála, en ekki í þeim tilgangi að ákærðu gætu farið með fjármuni félaganna með þeim hætti sem áður hefur verið lýst.

„Eins og málið var kynnt fyrir fjárfestum má ætla að ákærðu hafi notfært sér vanþekkingu aðila á áhættufjárfestingum og þann göfuga tilgang félaganna sem ákærðu lýstu gagnvart hluthöfum og fjárfesta, segir í ákærunni.

Taldi miklar líkur á að verkefnið væri rugl

Handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson var einn þeirra setti fjármagn í Arðvis en DV greindi frá því í að um tíu milljónir króna hefðu verið að ræða en Ólafur hafði sagt við DV að hann hefði litlar áhyggjur af þessari fjárfestingu og taldi miklar líkur á því að verkefnið væri rugl.


Tengdar fréttir

Húsleitir og handtökur á vegum sérstaks saksóknara

Þrír af aðstandendum fjárfestingarfélagsins Ardvis voru handteknir í morgun í rassíu embættis sérstaks saksóknara, að því er segir á vef DV.is. Meðal þeirra er helsti hugmyndafræðingur Ardvis, Bjarni Þór Júlíusson, að því er segir í frétt DV. Samhliða handtökunum fara fram húsleitir vegna rannsóknar embættisins. Þremenningarnir hafa verið færðir til yfirheyrslu hjá embættinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×