Viðskipti innlent

Trú á olíufund gæti stórbætt lánstraust Íslands

Svavar Hávarðsson skrifar
Sigmundur flutti erindi á atvinnumálaráðstefnu Austurbrúar á Hallormsstað á miðvikudag.
Sigmundur flutti erindi á atvinnumálaráðstefnu Austurbrúar á Hallormsstað á miðvikudag. Mynd/Auðdís Tinna
Aðeins möguleikinn á olíufundi á Drekasvæðinu felur í sér mikil sóknarfæri fyrir Austurland, og reyndar landið allt, er mat Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Að sitja undirbúningsvinnu af stað vegna hugsanlegs olíufundar leiðir til jákvæðrar keðjuverkunar og gæti jafnvel bætt lánstraust Íslands.

„Ég hef mikla trú á framtíð Íslands og hún byggist ekki hvað síst á þessum risastóru tækifærum sem við erum að ræða hér í dag,“ sagði Sigmundur á atvinnumálaráðstefnu Austurbrúar á Hallormsstað í gær, en hugsanlegt olíuævintýri á Drekasvæðinu og norðurslóðamál voru þar í forgrunni á öðrum degi ráðstefnunnar. Hann sagði reyndar að „norðurslóðamál væru ofarlega, jafnvel efst á lista, í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar – sérstaklega í utanríkismálum. Á hverjum einasta fundi sem ég hef átt með fulltrúum erlendra ríkja hefur þetta verið eitt aðal málið – og ekki endilega að mínu frumkvæði.“

Sigmundur sagði að útlendingar hafi orðið fyrri til að sjá um hversu stórt tækifæri er um að ræða og því megi Íslendingar engan tíma missa við að hefja undirbúning. Ekki síst í ljósi þess að ráðamenn annarra þjóða, ekki síst Kínverja, séu afar áhugasamir um norðurslóðir, og hlutverk Íslands í því samhengi. „Við verðum að nýta þessi tækifæri á okkar forsendum en í samvinnu við önnur lönd og jafnvel erlend fyrirtæki sem hafa þekkingu sem nýtist okkur í uppbyggingarstarfi.“

En það er samvinnan innanlands sem Sigmundur lagði ekki síst áherslu á, og vitnaði til þess að starfsemin yrði að vænta mest á Norður- og Austurlandi. Hann sagði að samkeppni, í stað samvinnu, gæti þýtt að tækifærin færu annað. „Það er nóg til skiptanna. Ef að þetta fer af stað af alvöru. Raunar meira en nóg. Það verður kannski frekar vandamálið að umsvifin verði það mikil að erfitt verði að sinna því öllu.“

Sigmundur sagði reyndar að trúin ein dugi til að mikilla áhrifa gæti. Undirbúningsvinna og rannsóknir hafi áhrif á fjárfestingu og uppbyggingu og jafnvel fjárhag ríkisins. „Þau vaxtakjör sem bjóðast á þessar skuldir sem við erum að reyna að greiða niður, þau ráðast af framtíðarhorfum í íslensku atvinnulífi. Og það að 320 þúsund manna þjóð væri komin með sterk rök fyrir því að verulegar olíu og gaslindir væri að finna í lögsögunni myndi væntanlega auka lánstraust Íslands til mikilla muna og hefði þannig strax mikil bein fjárhagsleg áhrif. Bara það að menn hafi trúna og sitji vinnuna af stað getur leitt til jákvæðrar keðjuverkunar.“

Sigmundur sagði í erindi sínu að það væri ríkisvaldsins að ýta keðjuverkuninni af stað, en á seinni stigum tækju aðrir við og verkefnið yrði í framhaldinu sjálfbært. „Það er mikilvægt að nýta þetta tækifæri jafnvel þó að svo færi að engin olía fyndist í vinnanlegu magni. Það er gríðarleg sóknarfæri í því falin að byggja upp þekkingu, reynslu og getu á þessu sviði. Færeyingar hafa um skeið leitað olíu í sinni lögsögu, en hafa ekki fundið lindina ennþá. En þó að olían sé ófundin þá hefur þessi starfsemi gjörsamlega skipt sköpum fyrir efnahag Færeyja – og ráðið úrslitum um að þeir eru ekki í kreppu. Þeir eru farnir að þjónusta olíuleit og vinnslu í Noregi, eftir þennan stutta uppbyggingartíma þekkingar til þess“, sagði forsætisráðherra og bætti við að þó að Drekinn reyndist þurr þá eru olíulindir í hafinu í kringum Ísland.

Nefndi hann í samhengi að Grænlendingar og Færeyingar vildu vinna með Íslendingum umfram aðrar þjóðir. Sagði hann að á fundum með grænlenskum stjórnvöldum hafi komið fram vilji þeirra til að auka samstarf við Íslendinga „til mikilla muna“ og fá Íslendinga til að ráðast í fjárfestingar og veita þjónustu í uppbyggingu Grænlands – í krafti þeirra gríðarlegu tækifæra sem þar eru.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×