Erlent

Snowden lendir eftir klukkutíma

Ólíklegt þyki að uppljóstrarinn Edward Snowden komi hingað til lands. Hann lendir í Moskvu eftir um klukkustund.
Ólíklegt þyki að uppljóstrarinn Edward Snowden komi hingað til lands. Hann lendir í Moskvu eftir um klukkustund. samsett mynd
Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden er nú á leið frá Hong Kong til Moskvu um borð í rússneskri farþegaflugvél. Samtökin Wikileaks segjast vera Snowden innan handar og að búið sé að tryggja honum pólitískt hæli í lýðræðislegu ríki þaðan sem hann heldur líklega frá Moskvu.

Bandarísk stjórnvöld gáfu á föstudaginn út ákæru á hendur Snowden fyrir njósnir og fóru þess á leit við stjórnvöld í Hong Kong að þau handtækju hann. Snowden hafði farið þar huldu höfði allt frá því að hann ljóstraði upp um stórfellt kerfisbundið eftirlit bandarískra stjórnvalda með síma- og netnotkun fjölda fólks. Yfirvöld í Hong Kong vildu ekkert gefa upp um það í gær hvort að orðið yrði við beiðni Bandaríkjamanna um að handtaka Snowden.

Dagblaðið South China Morning Post greindi frá því að Snowden hefði eftir að handtökuskipunin var gefin út yfirgefið Hong Kong. Hann er nú á leið með rússneskri farþegaflugvél til Moskvu frá Hong Kong og á að lenda um eitt leytið að íslenskum tíma í Moskvu.

Samtökin WikiLeaks greindu frá því á Twitter-síðu sinni að þau hafi aðstoðað Snowden við að koma sér á öruggan hátt frá Hong Kong og verið honum innan handar við að fá nauðsynlega pappíra til að geta ferðast. Þá hafi þau hjálpað honum við að tryggja sér pólitískt hæli í lýðræðislegu landi. Samtökin segja lögfræðiráðgjafa sína vera með Snowden í för.

Talið er að Snowden dvelji aðeins í skamma stund í Moskvu. Ekkert hefur fengist uppgefið um hvert hann heldur þaðan Erlendir fréttamiðlar hafa leitt að því líkur að hann geti verið á leið til Ekvador, Kúbu, Venesúela eða jafnvel Íslands. Ólíklegt er talið að hann komi hingað til lands.

Þannig sagði Ólafur Vignisson í samtali við fréttastofu að Snowden nýti sér ekki þotur sem að hópur tengdur WikiLeaks hafi tekið á leigu fyrir hann. Þá sagði Þórey Vilhjálmsdóttir aðstoðarkona innanríkisráðherra í samtali við fréttastofu að ráðuneytið hefði ekkert heyrt um það að hann kæmi hingað. Ráðherrann hefur sjálfur sagt að Snowden fái enga sérmeðferð hér á landi.

Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks, hefur undanfarna daga dvalist í Ekvador. Þegar fréttastofa náði tali af honum í morgun gat hann ekkert gefið upp um áfangastað Snowdens að sagði að hann ætti von á að samtökin myndu greina frá því síðar í dag.

Hér er hægt að fylgjast með flugvél Snowden í rauntíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×