Innlent

Ekki kunnugt um Íslendinga í röðum IS

Atli Ísleifsson skrifar
Evrópusambandinu telst til að um þrjú þúsund Evrópubúar hafi gengið til liðs við vígasveitir IS.
Evrópusambandinu telst til að um þrjú þúsund Evrópubúar hafi gengið til liðs við vígasveitir IS. Vísir/AFP
Embætti ríkislögreglustjóra er ekki kunnugt um að Íslendingar hafi gengið til liðs við vígasveitir IS í Sýrlandi og Írak. Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn Vísis.

Evrópusambandinu telst til að um þrjú þúsund Evrópubúar hafi gengið til liðs við vígasveitir IS. Þetta kom fram í svari Gilles de Kerchove, embættismanns á skrifstofu ESB sem fer með hryðjuverkamál, við spurningum breska ríkisútvarpsins í síðustu viku.

Í byrjun sumars kynnti danska leyniþjónustan að hundrað manns hið minnsta hafi farið frá Danmörku til Sýrlands að berjast við hlið sýrlenskra uppreisnarmanna. Kom fram að um væri að ræða karlmenn á aldrinum 16 til 25 ára sem hafi verið bendlaðir við hreyfingar herskárra íslamista í Danmörku. Þá var fullyrt að nokkrir þeirra hafi fallið í átökum.

Norsk yfirvöld sögðust sömuleiðis vita um að nokkrir tugir norskra ríkisborgara hafi haldið til Sýrlands til að bætast í uppreisnarsveitir IS.


Tengdar fréttir

Gerðu árásir á ISIS innan landamæra Sýrlands

Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hófu í nótt loftárásir á bækistöðvar hins íslamska ríkis innan landamæra Sýrlands. Þau ríki sem þátt taka í árásunum ásamt Bandaríkjamönnum eru öll af Arabíuskaganum að því er talsmaður hersins segir en þetta er í fyrsta sinn sem látið er til skarar skríða gegn vígamönnunum innan sýrlensku landamæranna.

ESB telur að 3000 Evrópubúar berjist með ISIS

Evrópusambandinu telst til að fjöldi evrópskra ríkisborgara sem berjist núna með hinu íslamska ríki í Írak og í Sýrlandi telji nú um þrjúþúsund manns. Þetta kemur fram í Gilles de Kerchove sem fer með hryðjuverkamál innan sambandsins í samtali við BBC.

Frakki í höndum vígamanna

Frönskum ríkisborgara hefur verið rænt í Alsír af herskáum íslamistum sem sagðir eru hafa tengsl við hið íslamska ríki í Írak og Sýrlandi. Þetta staðfestir utanríkisráðherra Frakka en myndbandi hefur verið dreift þar sem maðurinn sést í höndum vígamanna.

Baráttan við ISIS mun vara í nokkur ár

Talsmaður Bandaríkjahers segir ljóst að baráttan við hið Íslamska ríki, samtökin sem nú stjórna stórum svæðum í Írak og í Sýrlandi með harðri hendi, muni taka nokkur ár. Þetta kemur fram í viðtali sem fréttastofa BBC tók við aðmírálinn John Kirby en hann fullyrðir þó að loftárásir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á búðir samtakanna í Írak og í Sýrlandi hafi haft mikil áhrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×