Enski boltinn

Blæddi inn á nárann hjá Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson var ekki með Swansea þegar liðið tapaði á móti Liverpool í enska deildabikarnum í vikunni en íslenski landsliðsmaðurinn fór meiddur af velli á móti Leicester í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Gylfi er að glíma við meiðsli í nára og gæti misst af leik velska liðsins um næstu helgi.

„Það hefur komið í ljós að það hefur blætt inn á nárann og svo versnaði þetta í leiknum á móti Leicester. Ég verð að taka því rólega og er í meðferð," sagði Gylfi Þór í samtali við Guðmund Hilmarsson í Morgunblaðinu í morgun.

Guðmundur spurði Gylfa líka út í það hvort hann verði orðinn góður fyrir Tékkaleikinn mikilvæga en tvö efstu lið riðilsins mætast út í Tékklandi 16. nóvember næstkomandi. „Ég vona það svo innilega. Mér líður betur og ég held enn í vonina um að geta spilað á móti Everton á laugardaginn. Það er hins vegar ekki víst. Það ræðst af því hvort blóðið verður farið."

Gylfi hefur staðið sig frábærlega með Swansea-liðinu á tímabilinu og á mikinn þátt í því að liðið er í sjötta sætinu eftir fyrstu níu umferðirnar. Gylfi er með eitt mark og sjö stoðsendingar í þessum níu leikjum.

„Mér hefur gengið mjög vel en það er mikið eftir af tímabilinu. Vonandi heldur þetta góða gengi áfram og ég get bætt við stoðsendingum og mörkum," sagði Gylfi ennfremur.

Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Gylfi lagði upp mark Bony | Sjáðu mörkin

Gylfi Þór Sigurðsson átti sendinguna á Bony sem kom Swansea yfir á heimavelli gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í síðdegisleik dagsins.

Messan: Gylfi heldur áfram að gefa og gefa

Guðmundur Benediktsson og félagar hans í Messunni fóru yfir níundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær og auðvitað kom okkar maður, Gylfi Þór Sigurðsson, þar við sögu.

Gylfi fann fyrir náranum fyrir leikinn

"Hann er mjög teknískur og getur sent boltann á mig hvenær og hvar sem er,“ sagði Wilfried Bony um hvernig sé að leika með Gylfa Þór Sigurðssyni hjá Swansea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×