Innlent

Banaslys við Meðallandsveg: Ökumaðurinn ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bifreiðin hafnaði í Eldhrauni og kviknaði í henni á vettvangi.
Bifreiðin hafnaði í Eldhrauni og kviknaði í henni á vettvangi. mynd/rannsóknarnefnd samgönguslysa
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur ákært karlmann fyrir manndráp af gáleysi vegna banaslyss sem varð þann 4. ágúst 2013 á Suðurlandsvegi við Meðallandsveg í Eldhrauni. Tvær pólskar stúlkur sem voru farþegar í aftursæti bílsins létust í slysinu. Þær voru fæddar 1997 og 1998 og voru gestkomandi hér á landi.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa ekið án gildra ökuréttinda og á 124 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Slysið varð með þeim hætti að maðurinn tók fram úr annarri bifreið „án nægilegrar aðgæslu og án þess þá að aka inn á rétta akrein um leið og unnt var án hættu og óþæginda“, eins og segir í ákæru.

Er talið að maðurinn hafi ekið of hratt miðað við aðstæður sem hafi orðið til þess að hann missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún lenti utan vegar og valt. Staðnæmdist bíllinn á hvolfi úti í hrauni þar sem kviknaði í honum.

Stúlkurnar tvær sem létust köstuðust út úr bifreiðinni en þær voru hvorugar í bílbelti að því er fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Þær hlutu alvarlega áverka á heila og létust á vettvangi.

Foreldrar annarrar stúlkunnar gera einkaréttarkröfu í málinu og  fara fram á 5 milljónir króna í skaðabætur. Þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands fóru þau svo fram á að þeim yrði skipaður réttargæslumaður í málinu en á það var ekki fallist. Sú niðurstaða var kærð til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms.


Tengdar fréttir

Ferðamenn fyrstir á vettvang banaslyss

Ferðalag Urgo- fjölskyldunnar tók skyndilega krappa beygju þegar þau keyrðu að umferðarslysi á Suðurlandsvegi þann fjórða ágúst síðastliðinn.

Tvær stúlkur létust í bílslysi við Meðallandsveg

Tvær pólskar stúlkur létust í alvarlegu umferðarslysi á Suðurlandsvegi, skammt austan við Meðallandsveg, um þrjú leytið í gær. Stúlkurnar, sem voru fæddar árið 1997 og 1998, voru úrskurðaðar látnar á vettvangi þegar lífgunartilraunir, sem vegfarendur hófu en var haldið áfram af sjúkraliði, báru ekki árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×