Erlent

Tvær konur til viðbótar saka Trump um kynferðisofbeldi

Birgir Olgeirsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Tvær konur til viðbótar hafa stigið fram og sakað Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, um kynferðisofbeldi.

Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar segir að Kristin Anderson hafi sagt við Washington Post að Trump hefði farið með hendi upp undir pils hennar og káfað á henni á skemmtistað í New York í Bandaríkjunum á tíunda áratug síðustu aldar.

Þá er einnig sagt frá Summer Zervos, sem var þátttakandi í raunveruleikaþættinum Apprentice, sem segir Trump hafa þröngvað sér á hana á hóteli í Los Angeles.

Trump segir þessar ásakanir vera lygar.

Anderson segir Trump hafa káfað á henni utan nærklæða hennar á næturklúbbi í Manhattan þar sem hún starfaði sem þjónustustúlka til að sjá fyrir sér, en á þeim tíma vonaðist hún eftir því að verða fyrirsæta.

Zervos var þátttakandi í fimmtu seríu af The Apprentice en hún greindi frá þessu atviki á tilfinningaþrungnum blaðamannafundi í Los Angeles fyrr í dag. Hún sagðist hafa hitt Trump á hóteli í Beverly Hills árið 2007. Hún sagði Trump hafa heilsað sér með því að kyssa sig á munninn.

Hún segir Trump hafa beðið hana um að sitja við hlið sér í sófa þar sem hann á að hafa gripið í öxl hennar og reynt að kyssa hana og sett hönd sína á brjóst hennar.


Tengdar fréttir

Framleiðandi The Apprentice fordæmir framboð Trump

Mark Burnett, sjónvarpsþáttaframleiðandinn sem kom Donald Trump á kortið með þáttunum The Apprentice, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann fordæmir forsetaframboð Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×