Innlent

Niðurskurður og skattahækkanir einkunnarorð ársins 2010

Hærri skattar á einstaklinga eiga að skila ríkissjóði tæpum 37 milljörðum króna á næsta ári. Áfengis- og bensingjöld verða hækkuð en framlög til vegaframkvæmda verða lækkuð um tæpa 9 milljarða. Gert er ráð fyrir því að kaupmáttur launa dragist saman um rúmlega 11% á næsta ári.

Fjármálaráðherra kynnti í dag fjárlagafrumvarp ársins 2010. Þrátt fyrir niðurskurð og verulegar skattahækkanir er gert ráð fyrir því að ríkissjóður verði rekinn með 87 milljarða króna halla.

Mesti þunginn mun lenda á almenningi en stefnt er að hallalausum ríkisfjármálum árið 2013.

Skattar á einstaklinga verða þannig hækkaðir og eiga skila ríkissjóði aukalega um 37 milljörðum króna.

Fleiri skattahækkanir eru boðaðar í fjárlagafrumvarpinu. Hækkun og breyting á virðisaukaskatti á þannig að skila rúmum níu milljörðum í ríkiskassann, bensínskattar tæpum tveimur milljörðum til viðbótar og þá á nýr orku-, umhverfis- og auðlindaskattur að skila 16 milljörðum.

Alls er gert ráð fyrir því að skattahækkanir og breytingar skili aukalega um 63 milljörðum króna í ríkiskassann á næsta ári.

„Þetta er örugglega eitt það erfiðasta sem nokkur fjármálaráðherra hefur þurft að leggja fram," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Á móti skattahækkunum mun einnig verða dregið úr ríkisútgjöldum um 35 milljarða. Það verður gert með margvíslegum hætti.

Til að mynda verða framlög til vegaframkvæmda skorin niður um tæpa níu milljarða og framlög til heilbrigðismála um tæpa átta. Framlög til fræðslumála hækka þó lítillega á milli ára.

Spáð er yfir 10% atvinnuleysi á næsta ári og að kaupmáttur dragist saman um rúmlega 11%. Svigrúm til frekari niðurskurðar er því lítið.

„Ég tel að sé hvorki pólitískt né tæknilega hægt að taka stærra skref í þeim efnum en þarna er gert," segir Steingrímur.


Tengdar fréttir

Fjárlögin: Skatttekjur aukast um 63 milljarða

Samkvæmt fjárlögum fyrir 2010 er gert ráð fyrir að beinir og óbeinir skattar muni aukast um rúmlega 63 milljarða kr. frá árinu í ár. Þar af mun aukning á beinum sköttum verða 37,6 milljarðar og á óbeinum sköttum 25,5 milljörðum kr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×