Innlent

Ákærður fyrir tilraun til manndráps á stúdentagörðunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Manninum sem varð fyrir árásinni var hleypt inn í anddyri húss við stúdentagarða þar sem hann beið þar til sjúkrabíll kom.
Manninum sem varð fyrir árásinni var hleypt inn í anddyri húss við stúdentagarða þar sem hann beið þar til sjúkrabíll kom. vísir
26 ára karlmaður hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir tilraun til manndráps aðfaranótt sunnudagsins 6. mars síðastliðinn við stúdentagarða Háskóla Íslands. 

Manninum er gefið að sök að hafa stungið jafnaldra sinn og kunningja með hnífi hægra megin í bakið við lifrarstað. Hnífurinn fór hliðlægt í lifrina og orsakaði slagæðablæðingu og loftbrjóst. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrramálið.

Héraðssaksóknari krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að greiða allan sakarkostnað. Þá fer sá sem fyrir árásinni varð fram á 4,3 milljónir króna í bætur. Ákærði mun hafa játað hnífsstunguna í yfirheyrslum hjá lögreglu en neitar að hafa ætlað að bana kunningja sínum.

Í gæsluvarðhaldskröfu yfir árásarmanninum í mars kom fram að maðurinn sem ráðist var á hafi verið í lífshættu þegar hann kom á slysadeild en hann var með stungusár neðarlega á baki sem olli rispu á lunga og fór djúpt inn í lifrina. 

Deilur mannanna hófust eftir að sá sem fyrir árásinni varð tók mynd af rassi kærustu ákærða í íbúð við stúdentagarð. Færðust deilur þeirra úr íbúðinni og út á götu þar sem átökin hörðnuðu og lauk með hnífsstungu. Ákærði sat í gæsluvarðhaldi í mánuð eftir árásina. Sá sem fyrir árásinni varð hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×