Viðskipti innlent

„Hélt það versta yfirstaðið“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Flestir starfsmannanna störfuðu í höfuðstöðvum bankans í Austurstræti.
Flestir starfsmannanna störfuðu í höfuðstöðvum bankans í Austurstræti. vísir/vilhelm
43 starfsmönnum Landsbankans var sagt upp störfum í gær. Þrjátíu þeirra störfuðu í höfuðstöðvum bankans í Austurstræti og að auki fengu allir starfsmenn útibúsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar uppsagnarbréf.

„Þetta eru ömurlegar fréttir ofan á allt það sem á hefur gengið undanfarin fjögur ár,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Hann segir að síðan í hruninu hafi fjármálafyrirtæki fækkað starfsfólki um þriðjung eða um ríflega 2.000 manns.

Friðbert Traustason
Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að uppsagnirnar nái til flestra sviða. Aukin áhersla á rafræna afgreiðslu leiði til fækkunar og hagræðingar á sviðum sem áður þörfnuðust starfsfólks. Uppsagnirnar í flugstöðinni séu síðan varúðarráðstöfun þar sem óvíst sé hvort starfsemi bankans haldi áfram þar.

„Ég hélt að mesta umrótið væri búið eftir hrunið en svo fær maður fréttir á borð við þetta reiðarslag,“ segir Friðbert. „Það er varla hægt að halda kerfinu gangandi ef fyrirtækin taka upp á því að halda áfram að fækka fólki.“

Hann segir að uppsagnirnar komi auðvitað langverst við þá sem verða fyrir þeim. Nokkrir hafi haft samband við SSF í dag og Friðbert gerir ráð fyrir því að þeim sem það geri muni fjölga á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×