Innlent

„Hann sagði að ég væri svo falleg að mér yrði bara nauðgað“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Konan segir atvikið hafa haft gríðarlegar afleiðingar á líf sitt.
Konan segir atvikið hafa haft gríðarlegar afleiðingar á líf sitt. Vísir/GVA

„Ég segi, við skulum bara fara með þetta í blöðin. Það er ekkert sem þau geta gert. Förum í blöðin. Gerum þetta. Jörðum hann. Ég var náttúrulega bara brjáluð,“ segir Valdís Rán Samúelsdóttir , ein þeirra sem ber vitni í meiðyrðamáli Gunnars Þorsteinssonar sem hann höfðar gegn Pressunni.



Kölluð hóra og niðurlægð vegna útlits síns

Sjö konur stigu fram árið 2010 og sögðu frá meintu kynferðisofbeldi í þeirra garð af hendi Gunnars. Allar komu þær þó undir nafni, nema Valdís, sem kom ekki fram undir nafni fyrr en ári síðar. Brotið gegn Valdísi átti sér stað þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún var að hengja upp þvott þegar hann kom aftan að henni og strauk yfir magann á henni.



„Hann sagði, í hverju ertu undir þessu?“. Hún segir hann næst hafa strokið yfir brjóstin á sér og farið ofan í buxnastrenginn. Eiginkona hans hafi þá kallað á hann og hafi hann því hrökklast burt. Hún veit ekki hvort kona hans hafi séð til hans, en segir framkomu meðlima í Krossinum hafa breyst eftir atvikið. „Ég var kölluð hóra, var í of flegnum fötum, var niðurnídd og niðurlægð út af útliti mínu,“ segir Valdís.



Yrði nauðgað af því hún var svo falleg

Valdís segist hafa óskað eftir blessun til að fara í trúboð í Suður-Ameríku. „Hann sagði að ég væri svo falleg að mér yrði bara nauðgað. Þarna var ég tuttugu ára.“ Valdís segir hann hafa brotið kynferðislega gegn sér einu sinni, en andlega og trúarlega ítrekað. „Hann sagði að ef ég færi í uppreisn þá myndi ég enda í helvíti.“



Leiddist út í eiturlyfjaneyslu og súludans

Valdís segir atvikið hafa haft gríðarlegar afleiðingar á líf sitt. Í kjölfarið af þessu afvegaleiddist Valdís, byrjaði að neyta eiturlyfja og áfengis í miklum mæli og gerðist erótískur dansari á Þórskaffi. „Ég get enn fundið fyrir því hvar hann snerti mig. Ég get enn fundið fyrir hendinni hans á brjóstinu á mér. Mér fannst ég hafa misst völd yfir líkama mínum. Ég fór að dansa á Þórskaffi til að ná völdum yfir líkama mínum aftur,“ segir Valdís, og hún heldur áfram: „Ég drap mig næstum því. Afleiðingarnar eru svo margar. Enn í dag þarf ég að leita mér ráðgjafar.“


Tengdar fréttir

Gunnar: Hjónabandið hvati til árása

Gunnar í Krossinum segir hjónaband hans og Jónínu Benediktsdóttur grunninn að því að nokkrar konur hafi sakað hann um kynferðisofbeldi.

Símhringingar og hótanir á talhólf

Ein kvennanna sem Gunnar í Krossinum hefur stefnt fyrir meiðyrði segir konurnar hafa verið hræddar við áreiti frá Gunnari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×