Innlent

„Flottustu fréttir sem ég hef fengið lengi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fanney Björk er 65 prósent öryrki eftir að hafa smitast af lifrarbólgu C, þegar hún fékk blóðgjöf við fæðingu dóttur sinnar árið 1983.
Fanney Björk er 65 prósent öryrki eftir að hafa smitast af lifrarbólgu C, þegar hún fékk blóðgjöf við fæðingu dóttur sinnar árið 1983. Vísir/Stefán
Fanney Björk Ásbjörnsdóttir sem barist hefur ötullega fyrir því að fá lífsnauðsynleg lyf við lifrarbólgu C var klökk þegar Vísir náði tali af henni í morgun vegna frétta þess efnis að sjúklingar muni nú fá lyfin sem lækna sjúkdóminn í 95 til 100 prósent tilvika.

„Ég bara skelf og nötra og trúi þessu varla,“ segir Fanney sem stefndi ríkinu þar sem það hafði áður neitað henni um lyfin. Báru yfirvöld fyrir sig fjárskorti en lyfið kostar um 10 milljónir króna.

Aðspurð segir Fanney að  hún hafi alltaf reiknað með því að botn fengist í málið og hún, sem og aðrir sjúklingar með lifrarbólgu C, fengu lyfin en hún átti ekki von á því strax.

„Maður er eiginlega ekki búinn að átta sig á þessu enda er þetta búin að vera hellings barátta. Þetta er alveg stórkostlegt og flottustu fréttir sem ég hef fengið lengi,“ segir Fanney.

Tanja Tómasdóttir, dóttir Fanneyjar, smitaðist af lifrarbólgu í fæðingu en hún gekk í gegnum erfiða lyfjameðferð á sínum tíma og læknaðist af sjúkdómnum. Hún fagnar fréttum dagsins á Twitter.

Fer að brosa þegar Fanney verður heil heilsu

„Þetta er mikið fagnaðarefni og sýnir vel hvað Landspítalinn er öflug og mikilvæg stofnun í samfélagi okkar og hvað sérfræðingar spítalans njóta mikillar alþjóðlegrar virðingar,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður sem sótti mál Fanneyjar gegn ríkinu. Héraðsdómur sýknaði ríkið af kröfum Fanneyjar en dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar sem enn á eftir að kveða upp sinn dóm.

Páll segir fréttir dagsins sýna að hvað þrotlaus barátta hugrakkrar konu getur haft mikil og góð áhrif á samfélag okkar.

 

„Allir þeir sérfræðingar sem að málinu hafa komið eru á einu máli um að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að lækna þennan sjúkdóm með þessu lyfi. Þetta er auk þess sú lækning sem að Fanney á rétt á. Þessi réttur hennar til lífs og lækningar telst til mannréttinda hennar og sú ákvörðun að neita henni um lækninguna stóðst enga skoðun. Næsta skref er því að Fanney fái þessi lyf í hendurnar,“ segir Páll og bætir við að þau hafi gefið allt í þetta mál.

„Við höfum barist á hæl og hnakka til þess að fá lækningu fyrir hana Fanney. Þegar hún er læknuð þá er markmiðum okkar náð. Þegar hún er heil heilsu og laus við þjáningar sínar í fyrsta sinn í yfir 30 ár, þá fer ég að brosa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×