Erlent

Yfirvofandi mjólkurvöruskortur í Bretlandi vegna Brexit

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Mjólk er góð.
Mjólk er góð. Vísir/Getty
Mjólkurvörur gætu orðið munaðarvara í Bretlandi eftir útgönguna úr Evrópusambandinu samkvæmt nýrri skýrslu frá London School of Economics.

Ýmsir sérstakir og innfluttir ostar gætu orðið fágætir og dýrir í breskum verslunum, sama hvernig samningaviðræðurnar við Evrópusambandið fara.

Rétt ár er síðan að stjórnvöldum var birt önnur svört skýrsla um matvælaöryggi eftir ESB. Þar kom fram að verð á mörgum algengum vöruflokkum myndi hækka með minnkandi framboði.

Bretland framleiðir ekki nógu miklar mjólk til að anna eftirspurn. Breskir framleiðendur reiða sig því á innflutning frá Evrópusambandinu til að geta framleitt daglegar nauðsynjavörur á borð við smjör og Cheddar ost.

Jafnvel þó að allt fari á besta veg í samningaviðræðunum við Evrópusambandið og samið verði um tollalaus viðskipti með mjólkurvörur (sem er ólíklegt á þessari stundu) mun verðið samt hækka og framboðið minnka.

Ástæðan er að þegar tekið verður upp landamæraeftirlit mun það tefja flutning á ferskvöru á borð við mjólk sem verður að flytja til hafnar í Dover. Vegna mikils starfsmannakostnaðar er áætlað að fyrir hverjar sjö mínútur sem mjólkin tefst á leiðinni hækki verðið um meira en fimmtán þúsund krónur á gám.

Þá bætist við aukinn kostnaður vegna upprunavottunar og vottorða sem þarf að fá frá dýralæknum.

Samkvæmt skýrslu LSE getur aukin innlend framleiðsla á endanum vegið upp á móti þessum skorti en það mun taka mörg ár. Þangað til muni valið standa á milli þess að líða skort eða snarhækka verð.


Tengdar fréttir

Illa haldið utan um Brexit

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir bresk stjórnvöld hafa haldið illa utan um Brexit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×