Menning

Vonast til að koma með sýninguna heim

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Finnur Sigurjón og Lilja keppast við að forma dansverkið sem Lilja ætlar að frumsýna ásamt fleirum í Brooklyn 10. október.
Finnur Sigurjón og Lilja keppast við að forma dansverkið sem Lilja ætlar að frumsýna ásamt fleirum í Brooklyn 10. október. Fréttablaðið/Stefán
„Það var ákveðin heimþrá í mér og mig langaði að vinna með Íslendingi,“ segir Lilja Rúriksdóttir dansari um samstarf sitt og Finns Sigurjóns Sveinbjarnarsonar sem er að semja tónlist við nýtt dansverk hennar.

Hún er stödd hér á landi en fer út til New York nú í vikulokin til að hefja æfingar á verkinu því það verður frumsýnt í Brooklyn þann 10. október. Dansarar í því, auk Lilju, eru þrír og markmiðið er að sýna verkið á Íslandi eftir frumsýninguna.

„Ég vona innilega að ég geti komið með sýninguna heim,“ segir hún.

Lilja er tuttugu og þriggja ára og er nýútskrifaður dansari frá Juilliard-háskólanum í New York. Hún er sest að í stórborginni vestra, á þar bandarískan eiginmann sem hún kynntist í skólanum og hefur nóg að gera í dansinum með hinum ýmsu hópum.

Við útskriftina úr skólanum hlaut hún verðlaun sem kallast The Hector Zaraspe Prize for Choreography og eru veitt einum fjórða árs nemanda ár hvert. „Það var mikill heiður,“ segir hún brosandi.

Í sumar hlaut hún styrk frá The Mertz Gilmore Foundation til að semja nýtt verk og réð félaga sinn, Finn Sigurjón Sveinbjarnarson, til að semja tónlistina.

„Ég kynntist Finni Sigurjóni í MH, við vorum þar í sömu grúppu. Hann samdi tónlist við dansverk í Listaháskólanum fyrir Gígju vinkonu mína, ég kom heim til að sjá þá sýningu og hreifst af,“ segir Lilja.

„Okkur gengur bara vel með verkið. Byrjuðum hægt en um leið og við þrengdum rammann sem við vinnum í miðar okkur betur.“

Lilja er dóttir Hörpu Helgadóttur sjúkraþjálfara og Rúriks Vatnarssonar lögfræðings. Segja má að hún hafi farið dansandi gegnum lífið og ætli að halda því áfram.

„Ég byrjaði í Dansskóla Eddu Scheving þriggja ára. Svo var ég í Listdansskóla Íslands en sautján ára fór ég til New York á sumarnámskeið í Joffrey-ballettskóla. Ákvað að halda áfram þar um veturinn og hætta í MH. Svo hef ég verið í Juilliard síðustu fjögur árin. Kom heim á sumrin í fyrstu en hef svo verið úti ýmist á námskeiðum eða að dansa með dansflokkum.“

Hún kveðst hafa verið svo heppin að geta búið hjá frænku sinni fyrst þegar hún fór út í hinn stóra heim. „Ég þekkti hana ekkert fyrir en það var dásamlegt að fá að kynnast henni,“



Lilja var í klassískum ballett lengi vel en byrjaði að leggja aukna áherslu á nútímadans í Juilliard. „Þar lærði ég líka að semja sjálf. Hluti af bekknum var tekinn í þann kúrs og við þurftum að semja stór verk.“



Dansflokkurinn sem Lilja er mest í heitir The Dash Ensemble. Það er stór grúppa sem fer um New York og nágrenni með ýmis verkefni. „Við brestum í breikdans á köflum,“ segir Lilja. „Oftast dönsum við innan dyra en síðasta sýningin var úti.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×