Menning

Eig­andinn hel­tekinn af skrímslaverkunum hans Sindra

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sindri Ploder er búinn að skapa sér nafn í listasenunni með sterkum höfundareinkennum. Í Gallery Port er einkasýning Sindra.
Sindri Ploder er búinn að skapa sér nafn í listasenunni með sterkum höfundareinkennum. Í Gallery Port er einkasýning Sindra. Vísir/Arnar

Árni Már Þ. Viðarsson, eigandi Gallery Ports segist heltekinn af verkum unga listamannsins Sindra Ploder en hann hefur slegið í gegn með skrímslaverkum sínum sem nú prýða veggi sýningarrýmisins.

Sindri hefur vakið athygli fyrir grípandi teikningar af skrímslum í öllum regnbogans litum en hann var í fyrra valinn listamaður hátíðarinnar Listar án landamæra. Nú er hann mættur með einkasýningu í Gallery Port. Á laugardag klukkan tvö mun listfræðingur fjalla um verkin hans og Íris Stefanía Skúladóttir, listakona, mun fjalla um sýninguna út frá sjónarhóli listar án landamæra.

Sindri og Íris Stefanía hafa unnið saman í fjölmörg ár eða allt frá því Íris sá fyrst verk eftir hann.

„Ég verð bara ástfangin og þá hefst vegferð okkar saman og það er þarna vorið 2016, þá fæ ég Sindra með í bæði verkefni á Hönnunarmars og svo í samstarfi við Gallery Port, þegar það var á Laugaveginum.“

Þau Sindri og Íris Stefanía eru samstarfsmenn til margra ára en þau eru líka nánir vinir.Vísir/Arnar

Nú er Sindri búinn að skapa sér nafn í senunni. Íris segir markmið Listar án landamæra vera að upphefja list fólks með fötlun og koma listamönnunum á kortið.

„Það er það sem er að gerast hjá Sindra núna. Gallery Port hafði bara samband við hann persónulega og vildi fá að sýna hans list þannig að hann er núna orðinn sjálfstætt starfandi listamaður en mér finnst að öll heimili ætti að eiga Sindra, það er ekki spurning!“

Árni, sem rekur umrætt listagallerí er alveg heillaður af listfengi Sindra.

Árni hefur mikla trú á verkum Sindra en á laugardag verður dagskrá í tengslum við sýninguna. Árni segir að þeir sem séu áhugasamir um verkin geti fengið upplýsingar um verð hjá galleríinu.Vísir/Arnar

„Þetta eru náttúrulega bara geðveik verk. Ég og konan mín erum að kaupa seinna verkið okkar eftir hann á einu ári. Við byrjuðum að vinna með List án landamæra fyrir mörgum árum síðan en svo sáum við sýningu á þeirra vegum á Rauðarárstíg og við konan ákváðum að kaupa verk. Síðan þá höfum við bara verið heltekin. Okkur finnst þetta bara fáránlega gott.“


Tengdar fréttir

„Innblásturinn kemur bara af öllu sem við gerum“

Listamaðurinn Árni Már Erlingsson rekur Gallery Port á Laugavegi 32 en galleríið opnaði fyrst dyrnar fyrir um sex árum síðan. Árni Már er gestur í nýjasta þætti af KÚNST sem er að finna hér:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×