Innlent

Vindóttir hestar taldir síður þola áreiti

Viðkvæmni vindóttra hesta er viðfangsefni vísindamanna.
Viðkvæmni vindóttra hesta er viðfangsefni vísindamanna. Mynd/Gígja Dögg Einarsdóttir

Vindóttir íslenskir hestar virðast viðkvæmari fyrir umhverfisáreiti en aðrir íslenskir hestar.

Tengsl vindótta erfðavísisins og augnsjúkdóms kunna að vera skýringin, að því er haft er eftir vísindamanninum Emmu Brunberg á vefnum forskning.no. Þar kemur fram að vísbendingar hafi verið um að erfiðara væri að eiga við vindótta hesta en aðra.

Brunberg tók þátt í rannsókn sænskra vísindamanna á 27 íslenskum hestum, þar af níu vindóttum. Hún segir frekari rannsókna þörf til að hægt sé að færa óyggjandi sönnur á viðkvæmni vindóttra hesta. Kanna þurfi hvort augnsjúkdómurinn MCOA leiði til sjónskerðingar. Jafnframt þurfi að rannsaka vindótta hesta af öðrum tegundum.

Greint er frá því að tengsl milli erfðavísis og augnsjúkdóma hafi fundist í öðrum dýrategundum, til dæmis hundum og sebrafiskum. Sýnt hefur verið fram á að tengslin hafi haft áhrif á atferli hæna.

Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, kveðst hafa vitað af slíkum rannsóknum.

„En ég hef aldrei séð óyggjandi sönnur færðar á þetta. Ég veit ekki til þess að menn hafi merkt að vindóttir hestar séu viðkvæmari en aðrir.“

Grein Brunberg og samstarfsmanna hennar, Icelandic horses with the silver coat colour show altered behaviour in a fear reaction test, hefur verið birt í ritinu Applied Animal Behaviour Science. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×