Menning

Vil að fólk tali saman framan við verkin

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Steingrímur við hluta verksins Vörpun 2001. Á myndunum klæðist hann nærfötum sem fundust í gömlum skáp.
Steingrímur við hluta verksins Vörpun 2001. Á myndunum klæðist hann nærfötum sem fundust í gömlum skáp. Vísir/Stefán
Ég vil að þessi sýning skapi umræður því í henni eru mörg álitamál tekin fyrir. Sum listaverk eru bara litir og form og þá verður umræðan bara um hvort verkið sé fallegt eða ljótt – snýst um smekk og nær ekkert lengra. Það er ekki í boði hjá mér. Ég vil að fólk tali saman fyrir framan verkin og hafi skoðanir á innihaldi þeirra.“ Þetta segir Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður um sýninguna Kvenhetjur sem hann er með í aðalsal Hafnarborgar í Hafnarfirði.



Hluti verksins Grýla/Venus eftir Steingrím Eyfjörð.
Verk Steingríms eru frá síðustu 25 árum og skiptast í sjö seríur. Hver um sig hefur eigin titil og inniheldur mismargar myndir, málverk, textaverk og ljósmyndir. Einni seríunni fylgir myndband, annarri munir og öðrum skúlptúrar. Inntakið er af ólíkum toga. Kvenhetjan er nýjasta serían – Steingrímur fékk Lindu Björgu Árnadóttur hönnuð til að safna úrklippum af kvenhetjum og bætti sjálfur við tilvitnunum í heimspekinga og fræðimenn. Þar er spurt spurninga um mörkin milli eigin persónuleika og gervis sem krafist er í umhverfinu.

Steingrími verður að ósk sinni um umræðu því innihald sýningar hans verður rætt á sérstöku málþingi í Hafnarborg laugardaginn 25. febrúar. Auk hans sjálfs verða frummælendur þar þær Birta Guðjónsdóttir sýningarstjóri, Kristín Ómarsdóttir rithöfundur og Marta Sigríður Pétursdóttir og Nanna Hlín Halldórsdóttir, menningar- og kynjafræðingar.





Sigga Björg Sigurðardóttir fjallar um persónuna Rósu í verkum sínum í Sverrissal á jarðhæð Hafnarborgar. Fréttablaðið/Stefán
Rósa byrjaði sem frakki

Í Sverrissal, á jarðhæð Hafnarborgar, er Sigga Björg Sigurðardóttir með innsetningu á veggjum og gólfi. Hún fjallar um persónuna Rósu, uppruna hennar og sögu. Rósa er þar sýnileg sjálf sem skúlptúr á gólfinu, haldandi á hörpu – byrjaði reyndar sem frakki sem Sigga Björg fann og mótaði Rósu inn í, að eigin sögn. Svo urðu til margir fleiri skúlptúrar sem koma við sögu í tíu mínútna vídeóverki þar sem fylgst er með Rósu gegnum lífið, allt frá getnaði.



Margt ber fyrir augu á sýningu Siggu Bjargar.
Veggirnir tákna hver sína árstíð í verki Siggu Bjargar. Stórar myndir styðja við ævintýrið um Rósu, sumar eru málaðar á staðnum, beint á vegginn, en nokkrar eru nýkomnar af sýningu í Teikningasafninu í Laholm í Svíþjóð þar sem Sigga Björg sýndi í haust. Þær falla vel að efninu. „Fólk sem gengur hér um á að geta fengið tilfinningu fyrir aðalpersónunni,“ segir Sigga Björg. „Ég er að segja sögu en þó ekki alla söguna.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. febrúar 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×