Golf

Vantaði bara herslumuninn í gær

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Birgir Leifur lenti í áttunda sæti í Danmörku.
Birgir Leifur lenti í áttunda sæti í Danmörku. Vísir/Daníel
Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, hafnaði í 8. sæti á Willis Masters-mótinu í Danmörku sem lauk í gær, en mótið er hluti af Nordea-atvinnumótaröðinni.

Staðan var nokkuð góð fyrir lokadag mótsins sem fór fram í gær en hann var í 4. sæti, þremur höggum á eftir sænska kylfingnum Oscar Zetterwall þegar ræst var. Birgir fékk hins vegar tvöfaldan skolla strax á fyrstu holu sem gerði honum erfitt fyrir.

„Heilt yfir er ég mjög sáttur, ég var að slá virkilega vel með járnunum en upphafshöggið á fyrstu holunni refsaði mér grimmilega. Það var versta höggið mitt á mótinu en heilt yfir er ég mjög sáttur. Það var margt mjög gott og ég var nálægt því að blanda mér í baráttuna um titilinn þannig að ég tek margt úr þessu,“ en Birgir náði að laga stöðuna strax á þriðju holu í gær með því að næla í örn.

„Það var töluverður léttir að ná að stroka út fyrstu holuna á þriðju holunni. Það gaf manni trú á að það væri nóg eftir af þessu móti og þetta var eiginlega bara lýsandi fyrir mótið. Ég var að slá fullt af frábærum höggum og nýtti það vel á þriðju holunni en það vantaði bara herslumuninn til að berjast á toppinum,“ sagði Birgir sem vonaðist til þess að spilamennskan myndi halda áfram í þessum farvegi.

„Það var frábært að sjá að það sem ég hef verið að vinna í var að virka vel og ég get lítið annað gert en að reyna að byggja ofan á þetta og vonandi koma þá betri úrslit í framtíðinni,“ sagði Birgir Leifur sem hlaut 200.000 krónur í verðlaun fyrir áttunda sæti.


Tengdar fréttir

Birgir Leifur endaði í 8. sæti

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, hafnaði í 8. sæti á Willis Masters mótinu í Danmörku sem lauk í dag á 11 höggum undir pari.

Birgir Leifur fer vel af stað

Birgir Leifur Hafþórsson fór vel af stað á Willis Masters golfmótinu á Kokkedal golfvellinum í Danmörku í dag en hann kom inn á fimm höggum undir pari. Ólafur Björn Loftsson og Axel Bóasson eru einnig meðal keppenda en mótið er hluti af Nodrea atvinnumótaröðinni.

Birgir Leifur meðal efstu manna á Willis Masters

Birgir Leifur Hafþórsson er meðal efstu manna eftir annan dag á Willis Master mótinu í Danmörku. Gott gengi Birgis hélt áfram á fyrstu níu holunum en hann krækti í fimm fugla í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×