Golf

Ofurtölvan hefur litla trú á Rory McIlroy á Mastersmótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy hefur ekki byrjað árið vel en Mastermótið er eini risatitilinn sem honum vantar.
Rory McIlroy hefur ekki byrjað árið vel en Mastermótið er eini risatitilinn sem honum vantar. Getty/Brennan Asplen

Eins og í fótboltanum þá eru menn farnir að láta svokallaða ofurtölvu spá fyrir um sigurvegara á stærstu golfmótunum. Hún hefur nú skilað niðurstöðu sinni fyrir fyrsta risamót ársins.

Scottie Scheffler, Rory McIlroy, Jon Rahm, Xander Schauffele og Jordan Spieth þykja samkvæmt veðbönkum sigurstranglegastir á Mastersmótinu í golfi sem hefst á fimmtudaginn.

Næstir á eftir þeim eru Joaquin Niemann, Hideki Matsuyama, Brooks Koepka, Viktor Hovland og Tony Finau.

Scheffler vann Mastersmótið fyrir tveimur árum og hefur verið efstur á heimslistanum frá því í mars 2022. Hann hefur unnið Players-mótið undanfarin tvö ár og hann fagnaði sigri á mótinu í síðasta mánuði.

SportsLine notar ofurtölvu forritið fyrir golfið og hún hefur verið að standa sig vel í spádómum sínum. Niðurstöðurnar eru þó ekki aðgengilegar nema að borga fyrir þær. Það má sjá niðurstöðurnar hér fyrir forvitna. CBS segir frá.

Ofurtölvan spáði meðal annars Jon Rahm sigri á Mastersmótinu í fyrra sem og að spá Scheffler sigri árið 2022.

Athygli vekur að ofurtölvan hefur litla trú á Rory McIlroy að þessu sinni en mikla trú á Justin Thomas.

McIlroy hefur unnið fjögur risamót á ferlinum og vantar bara sigur á Mastersmótinu til að loka hringnum. Hann er í öðru sæti á heimslistanum en hefur ekki byrjað árið vel. Besti árangur hans er nítjánda sætið á Playersmótinu. Ofurtölvan hefur ekki einu sinni trú á því að hann verði meðal fimm efstu.

McIlroy er vinsæll og á sér marga stuðningsmenn sem vilja ekkert frekar en að sjá hann loka hringnum og fá loksins á klæðast græna jakkanum.

Justin Thomas þykir ekki líklegur til sigurs hjá veðbönkunum en ofurtölvan hefur trú á því að hann muni vera í baráttunni um titilinn. Thomas er reynslumikill kylfingur og hefur verið meðal 25 efstu á sex af síðustu sjö Mastersmótum. Hann varð fjórði árið 2020 (hans besti árangur á Masters) og í áttunda sætinu árið 2022. Thomas hefur unnið tvo risamót á ferlinum en í bæði skiptin fagnaði hann sigri á PGA meistaramótinu.

Mastersmótið í golfi verður í beinni á Stöð 2 Sport 4. Útsending frá fyrsta degi hefst klukkan 18.30 á fimmtudaginn. Daginn áður verður sýnt frá Par 3 keppninni en útsendingin frá henni hefst klukkan 18.30 á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×