Innlent

Væri frekar ef einhver á Akranesi líktist Trump

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ef einhversstaðar finnast skyldmenni Donalds Trump á Íslandi væri nærtækast að hefja leitina á Akranesi og nærsveitum. Þar voru talin sterkustu tengslin til forna við æskuslóðir móður Donalds Trump á Suðureyjum. 

Örnefnin í kringum Akrafjall hafa vakið forvitni manna og spurningar um keltneskar tengingar, eins og bæjarheitið Bekansstaðir.  Sagnfræðingurinn Magnús Jónsson bendir á að sömu örnefni finnast á Suðureyjum og á svæðunum í kringum Kjalarnes, Kjós og Akranes.

„Og ákveðinn svona klasi sem nær yfir sömu svæði með sömu örnefnum; Laxá, Melar, Akranes, Akurnes, Kross, Sandvík og fleira,“ segir Magnús.

Bærinn Bekansstaðir stendur undir norðanverðu Akrafjalli.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Oddviti Hvalfjarðarsveitar, Björgvin Helgason, segir íbúa meðvitaða um tengslin.

„Þessi tengsl eru skemmtileg við Suðureyjar. Og til dæmis á Akranesi er haldið upp á írska daga til að halda þessari tengingu á lofti. Þetta er áhugavert mjög hvernig sagan tengist Suðureyjum,“ segir Björgvin.

Móðir Donalds Trump var fædd og uppalin á bænum Tungu á eynni Ljóðhúsum á Suðureyjum. Í sveitunum við Akranes finnst auðvitað örnefnið Tunga, - í Svínadal. Þá er Vogatunga við ósa Laxár í Leirársveit.

Bærinn Tunga er í Svínadal. Móðir Donalds Trump er frá Tungu á Suðureyjum.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Linda Samúelsdóttir, húsmóðir í Tungu, hlær þegar hún er spurð hvort henni þyki þessi tenging skemmtileg. 

„Jú, Jú, en það er bara svo langt í burtu, er það ekki?“ 

-Er nokkuð fólk í sveitinni sem líkist Donald Trump, heldurðu? 

„Nei... en nú þarf ég að fara að hugsa.“ 

Linda Samúelsdóttir í Tungu í Svínadal.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Björgvin oddviti svaraði spurningunni svona: 

„Ég man nú ekki eftir neinum íbúa sem ber keim af Donald Trump, eða svipar til hans.“ 

-Það væri kannski einhver á Akranesi? 

„Það væri frekar,“ svarar oddvitinn og hlær. 

Donald Trump með foreldrum sínum. Er einhver sem líkist honum eða móður hans á Akranesi eða nærsveitum?
En vilji menn virkilega finna þá Íslendinga sem væru skyldastir Trump þá væri sennilega nærtækast að hefja leitina á Akranesi og nærsveitum. Til að bera saman erfðaefni væri fyrsta skrefið kannski að fá lokk úr hári Donalds.


Tengdar fréttir

Landnemarnir sigla áfram til Grænlands og Vínlands

Landnám Íslendinga á Grænlandi með siglingu Eiríks rauða árið 985 og dularfullt hvarf norrænu þjóðarinnar um 500 árum síðar er meðal þess fjallað verður um í þáttaröðinni "Landnemarnir“ sem heldur áfram á Stöð 2 í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×